Stólarnir flottir og flengdu FSu-piltana í Síkinu

Darrel Lewis átti enn einn stórleikinn í Síkinu í gær.  MYND: HJALTI ÁRNA
Darrel Lewis átti enn einn stórleikinn í Síkinu í gær. MYND: HJALTI ÁRNA

Síðustu leikirnir í fyrri umferð Dominos-deildarinnar fara fram nú í vikulokin og í gær fengu Tindastólsmenn lið FSu í heimsókn í Síkið. Stólarnir sýndu sínar bestu hliðar í leiknum og skemmtu stuðningsmönnum sínum með frábærum varnarleik sem oft á tíðum skilaði skemmtilegum skyndisóknum. Lokatölur voru 107-80.

Leiknum seinkaði um klukkutíma þar sem gestirnir og dómararnir töfðust í vetrarfærðinni en leiðindaveður skall á hér fyrir norðan eftir hádegi í gær. Gestirnir gerðu fyrstu körfu leiksins en síðan tóku Stólarnir yfir leikinn. Helgi Viggós og félagar spiluðu góða vörn á Chris Woods og Viðar sá að mestu um að gera bretanum Chris Caird lífið leitt. Woods var að mestu úti á þekju í fyrri hálfleik, þurfti að hafa mikið fyrir hlutunum í sókninni og gekk illa að finna körfuna. Hann var kominn með þrjár villur snemma í öðrum leikhluta og gat því lítið beitt sér í vörninni. Það varð til þess að Jerome Hill, sem átti skínandi leik fyrir Stólana, gat athafnað sig nánast óáreittur undir körfu gestanna því Woods þorði varla að koma við hann á löngum köflum. Stólarnir komust í 19-4 en staðan var 21-14 að loknum fyrsta leikhluta.

Í öðrum leikhluta var leikur Tindastóls stórbrotinn og ef gestirnir hefðu ekki verið að negla niður nokkra þrista hefðu þeir allt eins getað pakkað niður og farið heim í hálfleik. Helgi Margeirs hélt litlu-jólin sín í Síkinu og gerði 11 stig á þremur og hálfri mínútu um miðjan leikhlutann; sendi niður tvo geggjaða þrista í gjafaumbúðum og þetta leiddist gestunum og fóru að brjóta á kappanum sem setti niður fimm vítaskot eins og að drekka vatn. Staðan þá orðin 52-35 og í hálfleik var staðan 56-35.

Í síðari hálfleik jafnaðist leikurinn og Chris Woods sýndi loks hvað í honum býr. Hann raðaði niður undir körfunni og sótti villur á Tindastólsmenn eins og ekkert væri. Varnarmönnum Tindastóls þótti augljóslega að dómararnir væru helst til gjafmildir á villurnar og jörmuðu aðeins í þeim. Það hafði svo sem ekki mikið upp á sig frekar en fyrri daginn. Bæði lið spiluðu ágætan körfubolta í leikhlutanum og Tindastólsmenn yfirleitt með á bilinu 20-25 stiga forystu. Þeir sóttu grimmt inn í teiginn þar sem Lewis og Hill gátu leikið sér. Staðan 82-58 að loknum þriðja leikhluta.

Jerome Hill gerði fyrstu þrjú stig fjórða leikhluta en síðan hrökk sóknarleikur Stólanna í baklás og þeir gerðu ekki eina einustu körfu í fjórar og hálfa mínútu. Reyndar var mikið um mistök á báða bóga á þessum kafla þannig að gestunum gekk ekkert allt of vel að minnka muninn, komu honum þó í 18 stig, 85-67. Þegar Tindastólsvélin hrökk loks í gang þegar rúmar fjórar mínútur lifðu af leiknum, þá var það með túrbó og alles. Öruggur sigur í höfn, 107-80

Jou Costa, þjálfari Tindastóls, var að vonum ánægður og óskaði leikmönnum sínum til hamingju með frábæran leik. „Þeir lögðu sig hart fram í vörninni, það sem við lögðum upp með gegn Caird og Woods gekk upp og það er ástæðan fyrir sigrinum í dag,“ sagði spænski þjálfarinn í samtali við Vísir.is að leik loknum.

Lið Tindastóls átti sem fyrr segir mjög góðan leik í gær, ekki síst byrjunarliðið sem var skipað þeim Lewis, Hill, Helga Rafni, Viðari og Pétri. Lewis var sjálfum sér líkur og gerði 27 stig og virtist lítið hafa fyrir því. Hill átti sinn langbesta leik, var með 32 stig og 12 fráköst en spilaði þó aðeins tæpar 22 mínútur. Hann var með 38 framlagsstig sem er frábært. Viðar var magnaður í vörninni og þá virðist sem Helga Viggós þyki fátt skemmtilegra en að spila gegn Chris Woods. Þá var Pétur magnaður í leiknum, hann skoraði að vísu ekki mikið en bar boltann vel upp gegn snöggum andstæðingi og spilaði vörnina frábærlega. Sérstaka heiðursviðurkenningu fær hann fyrir eina flottustu stoðsendingu sem sést hefur í Síkinu, sendi boltann á Arnþór Frey sem setti í kjölfarið niður einu körfu sína í leiknum. Auk Helga Margeirs átti Hannes fína innkomu og þó Svabba tækist ekki að skora þá átti hann tvær vörslur í leiknum, þ.á.m. slökkti aðstoðarslökkviliðsstjórinn í væntanlegri troðslu frá Woods við mikinn fögnuð Síkisbúa.

Í liði FSu var Chris Woods lang atkvæðamestur með 30 stig og 12 fráköst. Hann var reyndar slakur í fyrri hálfleik en allt annað var að sjá til hans í þeim seinni. Bretinn Caird sá aldrei til sólar í leiknum en Hlynur Hreinsson var seigur, spilaði góða vörn á Pétur og átti nokkur góð skot í leiknum. Sömu sögu má segja um Gunnar Harðarson og Ara Gylfason.

Stig Tindastóls: Hill 32, Lewis 27, Helgi Margeirs 11, Flake 8, Hannes 7, Helgi Viggós 7, Pétur 7, Viðar 6 og Arnþór 2.

Tölfræði af vef KKÍ >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir