Stólarnir fengu Röstskellingu í Grindavík
Tindastólsmenn skelltu sér suður með sjó og mættu Grindvíkingum í Röstinni í fyrsta leik eftir jólafrí. Því miður höfðu heimamenn ákveðið að trekkja Pál karlinn Axel upp fyrir leikinn og hljóp hann eins og hríðskotabyssa um Röstina og skaut Stólana á bólakaf. Hann gerði 27 stig í hvorum hálfleik en talnaglöggir átta sig á því að það gera 54 stig sem ku vera jöfnun á stigameti Valla Ingimundar frá því í október 1988.
Valur gerði sín 54 stig reyndar í þríframlengdum leik Tindastóls og Hauka sem enn lifir bjartur og skír í minningu margra þeirra sem leikinn sáu á sínum tíma.
Tindastólsmenn hengu í heimamönnum rétt í byrjun enda byrjuðu bæði lið með jafnmörg stig. Grindvíkingar komust þó fljótlega í 10 stiga forystu eftir góðan kafla þar sem þeir gerðu 12 stig í röð. Grindvíkingar voru ekkert að dunda sér í sóknarleiknum og fengu fjölmörg hraðaupphlaup sem þeir nýttu vel. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 37-19 og ekkert nema brekka framundan hjá Stólunum. Tindastólsmönnum gekk betur að halda í við heimamenn í öðrum leikhluta en sem fyrr gekk illa að eiga við hraðaupphlaup Grindvíkinga. Staðan í hálfleik 68-43.
Þrátt fyrir að sóknarleikur Tindastóls væri með ágætum í þriðja leikhluta þá var varnarleikurinn ekki í lagi. Páll Axel fór sem fyrr segir á kostum í liði Grindvíkinga og virtist litlu skipta hvort leikmenn Tindastóls stæðu ofan í honum, ef hann náði skoti þá rataði það oftar en ekki í körfuna. Nýr kani Tindastólsmanna, Kenneth Boyd, olli nokkrum vonbrigðum og þá helst þar sem kappinn er ekki í því góða formi sem vonast hafði verið til. Hann tók þó 13 fráköst í leiknum og gerði 15 stig. Það er ljóst að ef Tindastólsmenn ætla að eygja von um að komast í úrslitakeppnina þá þarf Boyd að hrista af sér einhver grömm hið fyrsta.
Staðan að þriðja leikhluta loknum var 99- 67 og örlítið hægðist á Grindvíkingum í fjórða leikhluta en því miður á Stólunum líka og öruggur sigur Grindvíkinga því staðreynd. 124-85.
Lið Tindastóls lék ágætlega í sókninni og það er ekki slæmt að gera 85 stig í Grindavík. Það er hins vegar alls ekki gott að láta Grindvíkinga skora á sama tíma 124 stig. Það kemur auðvitað ekki á óvart þegar tölfræðin er skoðuð að hittni Grindvíkinga er talsvert betri en Stólanna og tóku Grindvíkingar talsvert fleiri skot í leiknum. Þá stálu heimamenn boltanum 17 sinnum en gestirnir aðeins 5 sinnum. Á móti kemur að Tindastólsmenn hirtu 40 fráköst en Grindvíkingar 31.
Svavar Birgisson setti niður sín samningsbundnu 20 stig og hirti 5 fráköst, Kenneth Boyd setti 15 stig og tók 13 fráköst, Michael Giovacchini gerði 12 stig og Sveinbjörn Skúlason gerði 9 stig.
Næsti leikur Tindastóls er nú fimmtudaginn 14. janúar en þá mæta Njarðvíkingar í Síkið. Grindvíkingar mæta í Síkið á sunnudaginn en eigast þá liðin við í Subway-bikarnum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.