Stólarnir féllu með tilþrifum
Tindastóll og Hvöt mættust í lokaumferð 2. deildar á Sauðárkróksvelli í dag og var ljóst fyrir leikinn að Stólarnir urðu að sigra til að tryggja sæti sitt í 2. deild. Það mistókst með eindæmum skrautlegum hætti. Eftir að hafa leitt 2-0 í hálfleik komu Tindastólsmenn máttlausir til leiks í þeim síðari og Blönduósingar gerðu fjögur glæsileg mörk og sendu granna sína á Króknum niður í eymd 3. deildar.
Það voru frábærar aðstæður á Króknum til að leika knattspyrnu í dag, sól og nánast logn og fólk fækkaði fötum í stúkunni. Blönduósingar hófu leikinn betur og leikmenn Tindastóls virtust á nálum en náðu þó forystunni eftir um stundarfjórðungs leik. Þá var brotið á Aðalsteini Arnarsyni innan teigs og úr vítaspyrnunni skoraði Gísli markvörðu Sveins af öryggi. Nú létti talsvert yfir leikmönnum Tindatsóls og þeir voru betra liðið á vellinum fram að leikhléi og bættu við einu marki. Það gerði Kristmar Björnsson og var markið stórmagnað en Marri átti ágætan leik í framlínunni í dag. 2-0 fyrir Tindastól í leikhléi.
Tindastólsmönnum hefur í allt sumar gengið afleitlega að halda forystu í leikjum sínum. Að þessu sinni urðu menn að halda haus, berjast af krafti og reyna að halda boltanum innan liðsins í síðari hálfleik. Það gekk ekki eftir. Strax var ljóst að Hvatarmenn ætluðu að selja sig dýrt, þeir færðu sig framar á völlinn og héldu boltanum vel. Færin létu nokkuð á sér standa en markið lá í loftinu. Á 62. mínútu misreiknaði vörn Tindastóls háan bolta inn á teiginn og Vignir Örn Guðmundsson skallaði laglega í mark Stólanna. 2-1 og nú mátti greina kvíða hjá stuðningsmönnum Stólanna.
Bæði lið sóttu nú og með smá heppni hefðu heimamenn geta aukið muninn en menn virtust hreinlega sprungnir á limminu. Þegar 20. mínútur voru til leiksloka jöfnuðu Blönduósingar eftir hornspyrnu. Áður en spyrnan var tekin skiptu Stólarnir Sævari Péturs og Davíð Rúnars útaf. Ekki voru varnarmenn Stólanna á tánum í horninu því Hvatarmenn unnu boltann og lögðu hann út á Óskar Snæ Vignisson sem setti boltann laglega framhjá varnarmönnum Stólanna og í netið. 2-2 og miðað við stöðuna í leikjunum í 2. deild blasti fall við heimamönnum.
Blönduósingar tryggðu sér síðan sigurinn með tveimur fallegum mörkum á tveggja mínútna kafla. Fyrst bætti Óskar við öðru marki sínu á 84. mínútu með viðstöðulausu skoti í þverslána-jörðina-inn, algjörlega óverjandi og skömmu síðar bætti Brynjar Guðjónsson við síðasta naglanum í kistu Stólanna þetta sumarið. Tindastólsmenn reyndu að komast inn í leikinn en allt kom fyrir ekki. Lokatölur 2-4.
Sem fyrr segir voru heimamenn sterkari í fyrri hálfleik en þeir voru á hælunum í þeim seinni. Þegar lið er að berjast fyrir sæti í deild gengur ekki að heyra menn rífast innbyrðis í stað þess að leggja sig alla í leikinn. Of margir leikmenn virkuðu pirraðir og þreyttir og virtust hreinlega ekki hafa þrek til að klára 90 mínútur og er synd að Tindastólsliðið þurfi að tefla fram liði sem þannig er ástatt um. Menn hafa tönnlast á því í mest allt sumar að engin heppni hafi fylgt liðinu og má það til sanns vegar færa. Það hlýtur þó að vera öllum ljóst að það er ekki bara óheppni að lið Tindastóls falli í 3. deild.
Og varla hafa menn trúað því að lið Hvatar hefði mætt á Krókinn til að láta moka yfir sig, það er vel þekkt speki að enginn er annars bróðir í leik. Það hefði mátt ætla, miðað við spilamennsku liðanna í síðari hálfleik, að það hefðu verið gestirnir frá Blönduósi sem væru að berjast fyrir sæti sínu í 2. deild en ekki lið Tindastóls.
Lið Hvatar spilaði ágætlega í dag þó þeir hefðu að litlu að keppa en með sigrinum tryggðu Blönduósingar sér fjórða sætið í 2. deild og hafa skorað 58 mörk í deildinni í sumar, 34 mörkum meira en lið Tindastóls sem gerði aðeins 24 mörk í 22 leikjum. Reyndar fengu Hvatarmenn á sig 49 mörk í leikjunum eða 11 mörkum fleiri en Stólarnir. Það er ekki á vísan að róa í boltanum!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.