Stólarnir auðveld bráð í Ljónagryfjunni
Lið Tindastóls lék annan leik sinn í Iceland Express deildinni í gærkvöldi en þá héldu piltarnir í Ljónagryfjuna í Njarðvík og reyndust því miður næsta auðveld bráð fyrir banhungruð ljónin úr Njarðvíkum. Heimamenn náðu góðri forystu strax í fyrsta leikhluta og var sigur þeirra aldrei í hættu. Lokatölur 108-81.
Stólarnir héldu í við Njarðvíkinga fyrstu 3-4 mínútur leiksins en þá tók einhver Jóhann Árni leikinn í sínar hendur og gerði kappinn 21 stig í fyrsta fjórðungnum. Helgi Freyr rammvilltist í upphafi leiks og var kominn með 3 villur eftir um 5 mínútna leik og við því mega Stólarnir ekki. Staðan 35-21 eftir fyrsta leikhluta.
Tindastólsmenn sýndu hvað í þeim býr í upphafi annars leikhluta og minnkuðu muninn í 6 stig en Njarðvíkingar voru ekki í neinu jólagjafastuði, svöruðu Stólunum með góðum leik og leiddu með 23 stiga mun í leikhléi, staðan 61-38.
Rétt eins og gegn Grindvíkingum síðastliðið föstudagskvöld var síðari hálfleikurinn nánast formsatriði. Munurinn jafnan í kringum 30 stig á liðunum og því kannski ekki annað að gera en að reyna að halda andlitinu. Þegar upp var staðið lönduðu Njarðvíkingar 27 stiga sigri, lokatölur 108-81.
Stigahæstur í liði Tindastóls var Svavar sem gerði 19 stig og Michael Giovacchini kom í humátt á eftir honum með 16 stig. Njarðvíkingar voru að minnsta kosti númeri of stórir fyrir kanalausa Króksara í gærkvöldi og fór Jóhann Árni Ólafsson sérstaklega illa með Stólanan en kappinn gerði 36 stig.
Næsti leikur Tindastóls er hér heima á föstudaginn en þá mætir Palli Kolbeins með KR-ingana sína í Síkið. Vonandi verða þeir Vesturbæingar í óstuði.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.