Sterkur sigur Stólastúlkna í Víkinni
Það bættust þrjú stig í sarpinn hjá kvennaliði Tindastóls í kvöld þegar liðið vann sterkan sigur á ágætu liði Víkings í Lengjudeildinni. Leikið var í höfuðborginni og hvort lið skoraði eitt mark í fyrri hálfleik en í þeim síðari gerði lið Tindastóls tvö mörk og sigraði því 1-3. Að sögn Guðna Þórs Einarssonar þjálfara eru Stólastúlkur ánægðar með stigin þrjú á erfiðum útivelli. „Þetta var ekkert endilega fallegasti sigurinn en okkur gæti ekki verið meira sama,“ sagði Guðni í spjalli við Feyki.
Fyrsta markið gerði Aldís María fyrir Tindastól á 27. mínútu en hún fékk stungu inn fyrir vörn Víkings og afgreiddi boltann laglega framhjá markverðinum og í netið. Rut Kristjánsdóttir jafnaði fyrir Víking með glæsimarki tíu mínútum og staðan jöfn í hálfleik. Mur kom Stólastúlkum yfir á 58. mínútu eftir fyrirgjöf frá Aldísi og eftir það reyndu heimastúlkur að jafna og náðu upp smá pressu. Það var hins vegar lið Tindastóls sem náði góðri skyndisókn skömmu fyrir leikslok, Mur sendi boltann á Laufeyju Hörpu sem náði að skora í annarri tilraun.
Guðni tjáði Feyki að Víkingar hefðu skorað algjört draumamark í fyrri hálfleik og við það hafi lið Tindastóls orðið óþolinmótt. „En við sýndum góða seiglu í seinni hálfleik og náðum að innbirða stigin þrjú. Þetta var sigur liðsheildarinnar. Áttum nokkra ágætis spilkafla en duttum aðeins niður þess á milli. En við vörðum markið okkar vel og unnum fyrir þessum stigum með baráttu og sigurvilja.
Aldís María átti frábæran leik í kvöld, gerði gott mark og átti stoðsendingu eftir sprett og góða fyrirgjöf. Hún var mjög vinnusöm og ógnandi í framlínunni. Þá spilaði Laufey Harpa einnig virkilega vel að sögn Guðna, vann öll návígi og náði að skora gott mark eftir frábæran undirbúning frá Murielle.
Næsti leikur Stólastúlkna er næstkomandi þriðjudag kl. 19:15 en þá koma Augnabliks-stúlkur í heimsókn á Krókinn. Lið Tindastóls er í öðru sæti Lengjudeildarinnar að loknum þremur umferðum, með sjö stig líkt og topplið Keflavíkur sem er með hagstæðara markahlutfall.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.