Stelpurnar slógu Fylki út úr bikarnum
Stelpurnar í Tindastól gerðu sér lítið fyrir og unnu Fylki í 16 liða úrslitum Borgunarbikarsins í kvöld með tveimur mörkum gegn einu. Ragnheiður Erla Garðarsdóttir skoraði fyrsta mark leiksins úr víti á 27. mínútu leiksins sem fyrrum leikmaður Tindastóls, Jesse Shugg, fiskaði. Ekki liðu margar sekúndur frá því að Fylkisstúlkur fögnuðu marki sínu að Stólarnir tóku miðju, brunuðu upp völlinn og Madison Cannon jafnaði metin í 1 – 1 en þannig var staðan í hálfleik.
Stólastelpur sýndu mikinn karakter og hræddust ekki liðið sem spilar í efstu deild Íslandsmótsins og gerðu út um leikinn á 57. mínútu þegar Eva Banton kom boltanum í mark Fylkis og þannig urðu lokatölur leiksins.
Dregið verður í 8 liða úrslit Borgunarbikars karla og kvenna miðvikudaginn 7. júní nk. kl. 12:00 í höfuðstöðvum KSÍ.
Auk Tindastóls eru Haukar, ÍBV, Grindavík, HK/Víkingur, Valur og Stjarnan komin áfram svo spennandi verður að vita hvaða andstæðinga Stólarnir fá.
HÉR er hægt að sjá leikinn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.