Steinullarmót Tindastóls í 6. flokki kvenna í knattspyrnu fór fram um helgina í norðangolu og sól og blíðu
Um helgina fór fram stúlknamót Tindastóls á Sauðárkróki í knattspyrnu í 6. flokki kvenna sem að þessu sinni bar nafnið Steinullarmótið. Í ár mættu um 600 keppendur til leiks frá 22 liðum alls staðar að af landinu og léku í um 100 liðum. Er það á pari við fyrri ár og ekki merki um færri skráningar vegna covid.
Mótið gekk mjög vel en breytingar voru á framkvæmd og skipulagningu mótsins þar sem sóttvarnir voru hertar sem og aðgengi foreldra og áhorfenda að leikjum og öðrum viðburðum mótsins. Umgengnisreglur í sal og gistingu voru til að mynda þannig að einungis keppendur og liðsstjórar fengu aðgengi að matsal og kvöldvöku. Að sögn skipuleggjenda var gaman að sjá hve allir voru tillitssamir. Áhorfendur fóru frá velli eftir leiki og héldu sig í hæfilegri fjarlægð frá áhorfendum annarra liða. Á laugardagskvöldinu var haldin kvöldvaka þar sem heimakonan hún Raggý (Ragndís) sá um Zumba og TikTok dansa. Virtust keppendur ánægði með það í það minnsta var mikið hoppað, klappað og dansað.
Veðrið var margbreytilegt um helgina. Norðangolan lét sig ekki vanta á laugardeginum og blés hressilega á keppendur. Sunnudagsmorguninn var blautur en svo létti til og lauk mótinu í sól og blíðu. Þrátt fyrir ekki betra veður var ekki annað að sjá en að góð stemning væri á mótinu og að keppendur undu sér vel.
Ljósmyndari Feykis var á ferðinni og tók þessar skemmtilegu myndir.
/SHV
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.