Starfsmenn Rarik fundu mannabein í Sæmundarhlíð

Ásta Hermannsdóttir, fornleifafræðingur hjá Byggðasafni Skagfirðinga ásamt starfsmönnum RARIK og Jóni bónda á Hóli. Mynd: Guðmundur Stefán Sigurðsson
Ásta Hermannsdóttir, fornleifafræðingur hjá Byggðasafni Skagfirðinga ásamt starfsmönnum RARIK og Jóni bónda á Hóli. Mynd: Guðmundur Stefán Sigurðsson

Rétt fyrir hádegi í dag fékk Guðmundur Stefán Sigurðarson, minjavörður Norðurlands vestra, tilkynningu um að mannabein hefðu mögulega fundist í jörðu á bænum Hóli í Sæmundarhlíð. Við nánari athugun kom í ljós að um kirkjugarð var að ræða sem ekki var áður vitað um.

„Við fengum tilkynningu núna rétt fyrir hádegið að þeir voru hérna frá Rarik að leggja heimtaug heim að bænum og rákust á bein sem þeim þóttu eitthvað torkennileg og voru eitthvað búnir að velta vöngum yfir þessu. Þeir héldu aðeins áfram og þá kom í ljós höfuðkúpa af manni, þannig að það fór ekkert á milli mál að þarna væri eitthvað sem þyrfti að skoða. Þeir höfðu samband og við erum hérna núna til að reyna átta okkur á því hvað er í gangi hérna,“ segir Guðmundur í samtali við Feyki

Það leikur enginn vafi á því að um mannabein er að ræða og búið er að finna að minnsta kosti tvær grafir. Guðmundur segir að heimildir séu til um bænhús á jörðinni en ekki kirkjugarð. Oft þar sem bænhús voru, voru áður hefðbundnar bændakirkjur með kirkjugarði sem urðu seinna að bænhúsum en slík hús höfðu ekki heimild til að greftra.

Rarik í Skagafirði með framúrskarandi árangur í að finna kirkjugarða

Guðmundur og hans fólk var alveg á frumstigum þess að skoða grafirnar þegar blaðamaður hafði samband en þó strax kominn með ákveðnar niðurstöður um að grafirnar séu frá því fyrir árið 1300. Guðmundur segir að það sé algengt að vinnuflokkar sem grafi í jörðina finni slíkt en Rarik í Skagafirði séu reyndar einkar færir í því.

„Þeir eru reyndar með alveg framúrskarandi árangur, Rarik í Skagafirði, að finna kirkjugarða. Þetta er allavega þriðji garðurinn sem þeir finna held ég. Þeir stela oft þrumunni af fornleifafræðingum sem eru að keppast við að leita að þessu og hafa ekkert fyrir því. Þannig það er bara mjög ánægjulegt að þeir láta allavega vita svo það sé hægt að skoða þetta og fylla í eyðurnar í sögunni, fá nánari upplýsingar, það er bara mjög ánægjulegt. Þeir eru ábyrgir í því að láta vita þegar svona kemur upp.“

„Það á eftir að meta hvað verður gert með þessi bein sem eru að koma hérna upp, þau eru vel varðveitt en það á eftir að ákveða hvort það sé einhver ástæða til þess að rannsaka þau eitthvað nánar eða hvort þau verði sett niður aftur,"  segir Guðmundur.

 

/SMH

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir