Sr. Aldís Rut ráðin prestur við Hafnarfjarðarkirkju
Nýlega auglýsti Biskup Íslands eftir presti við Hafnarfjarðarkirkju hvar sjö aðilar sóttu um starfið en Skagfirðingurinn sr. Aldís Rut Gísladóttir var ráðin. Sr. Aldís Rut er fædd á Sauðárkróki þann 5. febrúar árið 1989 en alin upp í Glaumbæ í Skagafirði. Hún er yngst fjögurra systkina, en hún er dóttir sr. Gísla Gunnarssonar vígslubiskups á Hólum og Þuríðar Kristjönu Þorbergsdóttur, sjúkraliða.
Á heimasíðu Þjóðkirkjunnar kemur fram að sr. Aldís Rut hafi lokið mag. theol prófi frá Háskóla Íslands árið 2017 og útskrifaðist með ágætiseinkunn auk þess að hafa lokið sama ár yogakennaranámi.
„Á síðustu árum hefur hún verið iðin við að bæta við sig auka menntun, diplómagráðu í sálgæslu sem og mastersgráðu í guðfræði og fléttaði hún saman tvö áhugamál í mastersritgerðinni þar sem hún fjallaði um sálgæsluna og Gamla testamentið. Einnig hóf hún nám í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf árið 2021 og hyggst ljúka því á næstu misserum.
Sr. Aldís Rut vígðist til prestsþjónustu í Hóladómkirkju árið 2019 til þjónustu við Langholtskirkju í Reykjavík og starfaði þar til ársins 2022 en þá hóf hún störf við Hafnarfjarðarkirkju í afleysingu. Sr. Aldís Rut hefur unnið frá unga aldri innan kirkjunnar, aðstoðað við sunnudagaskóla, verið æskulýðsfulltrúi í Guðríðarkirkju ásamt því að sjá um foreldramorgna og leitt djúpslökun í Grafarvogskirkju. Hún hefur verið að þróa djúpslökun með trúarlegu ívafi og kennt það í nokkrum kirkjum á höfuðborgarsvæðinu.
Hún er gift Ívari Björnssyni, bílasmið og eiga þau hjónin tíu ára brúðkaupsafmæli í sumar. Þau eiga þrjú börn, tvo drengi og eina stúlku," segir á kirkjan.is.
„Starfið leggst mjög vel í mig, hér hef ég verið í afleysingu í tæpt ár og hefur það verið einstaklega gjöfull og gleðilegur tími,“ sagði Aldís Rut í viðtali við fréttaritara kirkjan.is. Viðtalið er hægt að lesa HÉR
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.