Rauð viðvörun tekur gildi um kl. 10 – Foktjón á Norðurlandi vestra
Rauð veðurviðvörun tekur gildi á ný hér á Norðurlandi vestra kl. 10 og stendur til kl. 15 í dag. Vegagerðin ítrekar að ökutæki sem taka á sig mikinn vind eiga alls ekki að vera á ferli milli landshluta í dag. Margir vegir eru á óvissustigi og geta því lokað með stuttum fyrirvara. Vegfarendur eru beðnir að fylgjast vel með aðstæðum og vera tilbúnir að breyta ferðaplönum.
Sem stendur er slydda eða hundslappadrífa á Sauðárkróki en samkvæmt veðurkorti Veðurstofunnar er örlítið hlýrra vestan Skaga og þar rignir því á láglendi. Öxnadalsheiðin er lokuð sem stendur vegna óveðurs og varað er við krapa á Vatnsskarði og éljagangi. Éljagangur er á Þverárfjalli en þar er nú stillt.
Skil ganga síðan yfir Norðurland vestra þegar nær dregur hádegi, hitinn hækkar um tíu gráður og stífur sunnanvindur lætur til sín taka í 2-3 tíma á svæðinu og gengur yfir frá vestri til austurs. Um hádegi er spáð 28 m/sek á Holtavörðuheiði og ekki ólíklegt að heiðinni verði lokað fyrir umferð meðan mesti hvellurinn gengur yfir.
Rauð veðurviðvörun var ríkjandi á mest öllu landinu í gærkvöldi og fram á nótt og var gert ráð fyrir illviðri og miklum vindi. „Tilkynnt var um nokkur foktjón í gær og nótt, en búast má við því að í birtingu komi meira í ljós. Rúða sprakk í íbúðarhúsi í grennd við Húnavelli, þak losnaði af útihúsum í Miðhópi, bekkir fuku í grennd við Hofsós og dúkur körfuboltavallarins við Árskóla fauk af. Björgunarsveitir voru í öllum tilvikum ræstar út til aðstoðar við borgarana,“ segir á síðu Lögreglunnar á Norðurlandi vestra.
Í veðurspám var bent á að hvassast yrði við fjöll og flestir þekkja sitt nágrenni og vita hvar blæs mest í vissum vindáttum. Á vef RÚV.is er sagt frá því að næst öflugasta vindhviðan sem mældist á láglendi í gær, 58,1 m/sek, hafi verið á veðurmæli við Stafá í Sléttuhlíð í Skagafirði, skammt frá Reykjarhóli. Sem kemur fáum sem til þekkja á óvart.
Frétt uppfærð kl. 9:45.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.