Spennandi fyrirlestrar í Verinu og á Hólum

Verið á Sauðárkróki

Ólafur Ingólfsson prófessor í jarðfræði við Jarðvísindadeild HÍ heldur á morgun þriðjudag tvo fyrirlestra, á Hólum og á Króknum. Ólafur þykir skemmtilegur fyrirlesari og er hann sérfróður um jökla- og ísaldarjarðfræði.

 Fyrri fyrirlestur Ólafs undir heitinu Steingervingar og þróun lífs verður á Hólum klukkan 16 en í fyrirlestrinum verður fjallað um elstu þekkta steingervinga og líf í hafinu í árdaga jarðar, uppkomu vefdýra og lífssprenginguna á kambríumtímabilinu. Þá verðurstiklað á stóru um landnám og þróun plantna og dýra, aldauðaviðburði (þegar stór hluti lífvera dó út) og þróunarlega svörun lífvera við stórfelldum umhverfisbreytingum (flekahreyfingar og ísaldir). Að síðustu verður fjallað um “lifandi steingervinga” og reynt að svara spurningunni hver sé þýðing steingervinga fyrir sýn okkar á þróun lífsins?

 Síðari fyrirlesturinn verður í Verinu annað kvöld og hefst hann klukkan 20:00 og fjallar um Funheitt gróðurhús eða brunagaddur ísaldar? - veðurfarssaga jarðar síðustu 650 milljón ára

 Í erindinu verður skýrt frá helstu gögnum sem endurspegla veðurfarssögu jarðar. Orsakir öfgakenndra sveifla frá funheitu gróðurhúsaloftslagi til brunagadds ísalda verða skýrðar. Leidd verða rök að því að núverandi hlýskeið líði mót lokum og nýtt jökulskeið sé handan sjóndeildarhringsins. 

Að fyrirlestrunum standa Háskólinn á Hólum, Náttúrustofa NV og Verið Vísindagarðar ehf.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir