Söfn í þágu fræðslu og rannsókna | Alþjóðlegi safnadagurinn er í dag

Ferjumannakofi Hróbjartar Jónassonar frá Hamri í Hegranesi sem hafði umsjón með ferjunni yfir Vesturós Héraðsvatna nokkur síðustu árin. Kofinn var endurbyggður á 9. áratug síðustu aldar. MYNDIR: BYGGÐASAFN SKAGFIRÐINGA - NEMA ANNARS SÉ GETIÐ
Ferjumannakofi Hróbjartar Jónassonar frá Hamri í Hegranesi sem hafði umsjón með ferjunni yfir Vesturós Héraðsvatna nokkur síðustu árin. Kofinn var endurbyggður á 9. áratug síðustu aldar. MYNDIR: BYGGÐASAFN SKAGFIRÐINGA - NEMA ANNARS SÉ GETIÐ

Yfirskrift safnadagsins í ár, „Söfn í þágu fræðslu og rannsókna“, snýr að mikilvægi menningarstofnana þegar kemur að því að bjóða upp á heildræna fræðslu og tækifæri til þekkingaröflunar. Eins og segir á heimasíðu FÍSOS (Félag íslenskra safna og safnamanna): „Söfn þjóna samfélaginu sem kraftmiklar fræðslumiðstöðvar, þar sem þau glæða forvitni, sköpunargleði og gagnrýna hugsun. Nú í ár er vakin athygli á þætti safna í að styðja við rannsóknir og skapa vettvang til að kanna og deila hugmyndum. Hvort sem viðfangið er saga eða listir, tækni eða vísindi, þá eru söfn vel í stakk búin til að efla skilning og þekkingu okkar á heiminum í gegnum fræðslu og rannsóknir.“

Byggðasafn Skagfirðinga stundar fjölbreyttar rannsóknir en helstu rannsóknarflokkar í rannsóknarstefnu safnsins eru:

  • Rannsóknir á safngripum og þjóðháttum þeim tengdum
  • Rannsóknir á torfhúsaarfinum
  • Fornleifarannsóknir

Þá miðlar safnið þekkingu með ýmsum hætti, með sýningahaldi, viðburðum, útgáfum smárita (24 talsins), bóka og skýrsla (sem slaga nú hátt í 300). Einnig hefur safnið staðið fyrir fjölda námskeiða m.a. í gegnum Fornverkaskólaverkefnið, svo eitthvað sé nefnt.

Rannsókn á torfhúsum í Skagafirði

Í þessu sambandi viljum við vekja athygli á nýjustu rannsóknarskýrslu safnsins, Torfhús í Skagafirði, sem kemur út á næstu dögum en Byggðasafn Skagfirðinga fékk styrki frá Minjastofnun Íslands árin 2021 og 2022 til að skrá uppi-standandi torfhús í Skagafirði. Í fyrri áfanga voru skráð hús í fyrrverandi Akra-, Lýtingsstaða- og Seyluhreppi og í seinni áfanga var lokið við skráningu húsa í Skagafirði. Markmið með skráningunni var að fá heildaryfirlit yfir þau hús sem enn standa, gerð þeirra, hlutverk og ástand. Ekkert heildaryfirlit er til yfir uppistandandi torfhús á lands-vísu og því óljóst hversu mörg hús eru raunverulega enn til, hverrar gerðar þau eru og hvert ástand þeirra er, að frátöldum þeim húsum sem tilheyra húsasafni Þjóðminjasafnsins eða öðrum söfnum, og nú, með tilkomu þessarar skýrslu, húsum í Skagafirði. Slíkt yfirlit er forsenda þess að hægt sé að móta stefnu um verndun þessarar húsagerðar.

Alls voru skráð 55 hús sem skilgreind voru sem uppistandandi í Skagafirði árin 2021 og 2022. Hlutverkum húsanna sem skráð voru má gróflega skipta í þrjá flokka: torfbæi/bæjarhluta, búpeningshús og hús með annað hlutverk. Miðað var við upprunalegt (eða elsta þekkta) hlutverk húsa en af 55 húsum voru 21 hús sem höfðu, að öllu leyti eða að hluta, fengið nýtt hlutverk í seinni tíð. Algengast er að hús séu notuð sem hesthús eftir að fyrra hlutverki þeirra lýkur og næstalgengast er að hús, oftast hesthús, séu nýtt áfram sem reykkofar. Heimildir um breytingar á húsum eru sjaldnast til nema í munnlegri geymd eða á gömlum ljósmyndum, sem eru sjaldgæfar. Sumar breytingar má lesa úr byggingunni sjálfri, t.d. þar sem torfþaki hefur verið skipt út fyrir bárujárn.

Öll húsin sem fjallað er um í skýrslunni eiga það sameiginlegt að vera að einhverju leyti byggð úr torfi og grjóti en mismikið. Auk torfs- og grjóts eru húsin byggð úr timbri, bárujárni, steinsteypu og í a.m.k. tveimur húsum var asbest klæðning. Í mörgum tilfellum hafði húsum verið breytt einhvern tímann á 20. öld með tilkomu nýrra byggingarefna og viku þá hlaðnir veggir gjarnan fyrir timburveggjum, oft timburþili, báru-járni eða steypu. Eins var torfþökum gjarnan skipt út fyrir bárujárn sem ýmist var tyrft yfir eða ekki.

Torf var notað sem byggingarefni víðar í Evrópu en hvergi eins lengi og hér, þar sem einangrandi eiginleikar torfsins veittu skjól fyrir veðri og vindum í harðbýlu landi. Torf er hins vegar lítið notað sem byggingarefni í dag og handverksþekkingin, sem áður lærðist frá manni til manns, er á undanhaldi. Ef hún hverfur alfarið, eins og gerst hefur víðast hvar í heiminum, þá hverfur um leið getan til að viðhalda þeim húsum sem til eru. Torfhúsin og tilheyrandi handverks-þekking er mikilvægur hluti af menningararfi Íslendinga og til mikils unnið ef hægt væri að varðveita þau og þá ekki síður handverkið.

Uppistandandi húsum fækkar hratt

Árið 2018 gaf Sigríður Sigurðardóttir, þáverandi safnstjóri Byggðasafns Skagfirðinga, út skýrsluna Gamlar torf- og grjóthleðslur í Skagafirði 1987-2017. Í þeirri skýrslu má m.a. finna ljósmyndir og lýsingar á 37 torfhúsum (eða hluta torfhúsa) sem voru uppistandandi á árunum 1987-2001, í Seylu-, Akra- og Lýtingsstaðahreppi. Í dag eru rúmlega 60% þeirra horfin eða orðin að tóftum. Ef þróun á ástandi torfhúsa verður svipuð í Skagafirði og hún var síðustu 30 ár má, að óbreyttu, gera ráð fyrir að eftir 30 ár verði ríflega 20 hús uppistandandi af þeim 55 sem standa í dag. Líklegast er þó að þróunin verði enn hraðari vegna aldurs og skorti á viðhaldi. Loftslagsbreytingar, s.s. tíðari stormar og aukin úrkoma, eru auk þess líkleg til að hafa neikvæð áhrif á torfhúsin og flýta fyrir hrörnun þeirra.

Í samtölum við bændur kom fram að veðurfar undanfarna vetur hefði verið óhagstætt fyrir torfhús, bæði mikil úrkoma, frostleysi og vindur, og fóru mörg hús illa eða féllu endanlega (a.m.k. fimm). Fyrir flestum húsanna liggur að falla og verða að tóftum og einhver munu hverfa af öðrum orsökum, s.s. verða fjarlægð ef þau skapa hættu eða vegna framkvæmda. Spurning hvort ekki sé þörf á að vernda einhver þessara húsa? Það er ljóst að ekki er hægt að viðhalda þeim öllum, og kannski ekki ástæða til, en það má velta því fyrir sér hvort ástæða sé til varðveislu einhverra húsa a.m.k. þeirra sem eru fágæt eða sérstök á einhvern hátt. Í húsasafni Þjóð-minjasafnsins eru varðveitt 20 torfhús og meirihluti þeirra eru torfbæir, bæjarhlutar eða kirkjur. Minna er varðveitt af búpeningshúsum eða öðrum útihúsum og ef til vill mætti leggja ríkari áherslu á að varðveita þá tegund húsa.

Torfhúsaeigendur áhugasamir um viðhald en skortir úrræði

Aðspurðir sögðust fjölmargir torfhúsaeigendur hafa áhuga á að gert yrði við húsin og þeim veitt framhaldslíf en hár kostnaður við viðgerðir var gjarnan sögð ástæða þess að ekkert hafði verið gert, styrkir jafnan lágir og kunnáttuleysi til að viðhalda húsum á eigin spýtur. Í skýrslunni er fjallað um með hvaða hætti væri hægt að koma til móts við húseigendur með styrkjum og jafnvel koma að viðgerðum á húsum með námskeiðahaldi. Þá mætti leggja upp með að eigendur torfhúsa sæki nám-skeið og verði þannig bærir til að sinna viðgerðum og viðhaldi á eigin húsum. Þetta myndi efla þekkingu á handverkshefðinni og ýta undir að hún verði að einhverju leyti sjálfbær. Ekki er síður mikilvægt að halda áfram að safna upplýsingum um torfhús og skrá þau, mynda og jafnvel teikna upp, á meðan þau eru enn uppistandandi, og varðveita þannig upplýsingar um dýrmætan menningararf til framtíðar.

- - - - -

Hér að neðan má sjá nokkur dæmi um skráð torfhús sem eru til umfjöllunar í skýrslunni. Við vekjum einnig athygli á sýningunni Hér stóð bærog fjallar um rannsóknina, og er í Gilsstofu í Glaumbæ.

Skýrslur Byggðasafns Skagfirðinga má nálgast á heimasíðu safnsins >

SKÝRSLUHÖFUNDUR: Bryndís Zoëga
SAMANTEKT: Ylfa Leifsdóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir