Smalað í dag fyrir Víðidalstungurétt
Í dag verður hrossastóði Víðdælinga smalað af Víðidalstunguheiði og niður að Víðidalstungurétt. Ávallt hefur mikið fjölmenni tekið þátt í smöluninni og réttarstörfum sem fara fram á morgun.
Kristín Guðmundsdóttir á Miðhópi er fjalladrottning Víðdælinga en hún segir í viðtali í síðasta Feyki að nauðsynlegt sé að fá sér súpu hjá Jónínu á Kolugili en hún býður upp á kjötsúpu í gangnamannakofanum á Fosshóli fyrir gangnamenn og aðra gesti.
Á morgun verður stóðið rekið til réttar klukkan 10 og hefjast þá hefðbundin réttastörf en eftir hádegið verður haldið uppboð á völdum hrossum. Þar má helst nefna brúnskjótt hestfolald Unnar frá Blönduósi sem er undan Álfi frá Selfossi og fyrstu verðlauna hryssan Uglu frá Kommu en þaðan hafa komið margir af bestu gæðingum landsins undanfarin ár.
Klukkan 14:30 verður dregið í happdrætti en allir þeir sem kaupa sér kaffi hjá Kvenfélaginu Freyju fá happdrættismiða í kaupbæti. Fjöldi glæsilegra vinninga þar sem folald er aðalvinningurinn.
Á laugardagskvöldið verður svo stóðréttadansleikur í Víðihlíð þar sem sveiflukóngurinn Geirmundur Valtýsson leikur fyrir dansi.
Margir ferðaþjónustustaðir í nágrenninu eru með spennandi tilboð á mat og gistingu þessa helgi. . Nánari upplýsingar er hægt að nálgast hjá ferðþjónustuaðilum í Húnaþingi vestra.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.