Slæmur þriðji leikhluti reyndist Stólastúlkum dýrkeyptur
Stólastúlkur skelltu sér í Grafarvoginn sl. laugardag og öttu kappi við sprækt lið Fjölnis í 1. deild kvenna í körfunni. Lið Tindastóls kom ákveðið til leiks og var þrettán stigum yfir í hálfleik en heimastúlkur létu það ekki trufla sig og snéru leiknum við í þriðja leikhluta og lönduðu að lokum tíu stiga sigri, lokatölur 77-67.
Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta, liðin skiptust á um að hafa forystuna en Tindastóll var yfir, 14-15, að leikhlutanum loknum. Gestirnir hrukku í gírinn í öðrum leikhluta og munaði mikið um fjóra þrista frá Tess. Staðan í hálfleik var 28-41 fyrir Tindastól en Fjölnisstúlkur lögðu ekki árar í bát og hófu þegar að saxa á forskot Stólastúlkna í þriðja leikhluta.
Eftir sex mínútna leik var munurinn kominn niður í eitt stig, 45-46, og Margrét Ósk Einarsdóttir kom þeim yfir, 49-48, skömmu síðar. Lið Fjölnis gerði síðan fimm síðustu stig leikhlutans og staðan 56-50 fyrir Fjölni. Marín Lind, sem átti ágætan leik fyrir Tindastól, minnkaði muninn í upphafi lokafjórðungsins en ekki leið á löngu þar til Fjölnisstúlkur voru komnar tíu stigum yfir og brekkan orðin brött fyrir lið Tindstóls. Mest náði lið Fjölnis 14 stiga forskoti en góðar körfur frá Marín og Hrefnu Ottós héldu liði Tindastóls inni í leiknum. Stólastúlkur náðu að minnka muninn í sex stig þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir en það voru heimastúlkur í Fjölni sem reyndust sterkari á lokakaflanum og fögnuðu því sigri á toppliði Tindastóls.
Það voru aðeins fjórar stúlkur sem náðu að skora fyrir lið Tindastóls á laugardaginn og það er nú sjaldnast vænlegt til árangurs. Tess Williams var stigahæst með 26 stig, Marín Lind gerði 20 stig, Hrefna endaði með 15 stig og Telma Ösp gerði sex stig og tók átta fráköst. Kristín Halla tók tíu fráköst í leiknum. Lið Fjölnis var mun jafnara og þar voru sjö leikmenn með tíu eða meira í framlagspunktum á meðan að aðeins Tess og Hrefna náðu þeim áfanga í liði Tindastóls. Stigahæstar í liði Fjölnis voru Heiða Hlín Björnsdóttir með 16 stig og Fanney Ragnars með 15.
Næst spila Stólastúlkur hér heima í Síkinu næstkomandi laugardag en þá kemur gott lið Keflavíkur b í heimsókn. Leikurinn hefst kl. 16:30 og eru stuðningsmenn hvattir til að fjölmenna og hvetja lið Tindastóls í toppbaráttunni í 1. deildinni. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.