Skjaldborg um ála, en ekki fólkið!
Ekki er allt sem sýnist. Ríkisstjórnin segist leggja höfuðáherslu á að slá skjaldborg um hag heimilanna. En er það svo? Því hefur ríkisstjórnin svarað sjálf með aðgerðarleysi sínu. En á sama tíma kallað er eftir aðgerðum fyrir fólk og fyrirtæki, snýr ríkisstjórnin sér undan og leggst á hina hliðina.
Við sjáum forgangsröðunina. Erfðabreyttar lífverur, förgun úrgangsefna og ESB, eru dæmi um málin sem ríkisstjórnin lagði áherslu á í sumar. Málefni fólksins í landinu og atvinnulífsins geta komið seinna; komi þá einhvern tímann röðin að þeim.
Núna sitja til dæmis „sveitir“ starfsmanna Stjórnarráðsins (svo orðalag ættað frá Ólafi Ragnari Grímssyni sé notað) við að ráða í krossaprófin sem Brussel hefur sent hingað til lands til úrlausnar. Við munum að hinir vænstu menn úr Samfylkingunni sögðu okkur að ákvörðunin ein um að sækja um ESB aðild væri snar og mikilvægur þáttur í að kippa efnahagslífinu, fyrirtækjunum og efnahag heimilanna í lag. Þau orð eins og fleiri eru til marks um þá firringu sem virðist ríkja hjá ráðandi öflum við landsstjórnina.
Krossaprófið mikla frá Brussel
Það er ástæða til þess að hvetja sem flesta til að lesa krossaprófið mikla frá Brussel. Spurningarnar komast fyrir á tæplega 400 blaðsíðum. Segir og skrifa 400 blaðsíðum, hvorki meira né minna. Maður veltir fyrir sér, hversu hnausþykkur verður doðranturinn með svörunum þegar hann lítur út. Afrakstur einbeitingar og strits fjölda fólks, á meðan eignir fólks og fyrirtækja brenna.
Í spurningum ESB getur nefnilega heldur betur að líta. Það er ljóst að þegar í þær rúnir hefur verið ráðið mun blasa við okkur ítarleg haglýsing á Íslandi. Spurningarnar eru svo fjölþættar að fátt mannlegt hér á landi lætur Brussel sér óviðkomandi.
Þetta á við í stóru sem smáu. Skrifari þessara orða hefur t.d rennt yfir spurningar um landbúnað og sjávarútveg, sem er ótrúlega fróðleg – og hvað skal segja – athyglisverð lesning !
Þar sem grassprettan er minni en 80% af meðalsprettu...
Á sviði landbúnaðar er spurt ítarlega um hvaðeina sem snertir landbúnað, neysluvenjur, umfang, einstakar búgreinar, styrki, lífræna ræktun og áfram mætti telja. Og síðan snúa menn sér að aðalatriðunum, eða þannig. Þá er spurt um stöðu landbúnaðar sem fram fer ofan 800 metra fyrir ofan sjávarmál, landbúnað í bröttum hlíðum, landbúnað þar sem hallinn í landslaginu er innan við 15% svo fátt eitt sé nefnt. Í Brussel vilja menn líka vita hversu margir til sveita hafi ekki aðgang að rennandi vatni, síma í fastlínukerfi, eða rafmagni. Og svo vilja þeir líka vita um þau landsvæði þar sem grasspretta er minna en 80% af meðal sprettu í landinu.
Er nokkuð brýnna en að vita allt um þessi atriðið ?!
Áhyggjur af álunum
Og ekki eru þeir í Brussel minna forvitnir um sjávarútveginn. Þeir spyrja til dæmis grundvallarspurninga um fiskneyslu Íslendinga, enda skiptir það auðvitað meginmáli fyrir sjávarútvegsþjóð sem flytur nánast út alla sína framleiðslu ! Beðið er um útlistun á flotastjórn og stjórn auðlinda, því smámáli - í hnitmiðuðu formi.
Og síðan snúa menn sér að kjarna málsins. Sem er auðvitað töluliður 26 í B lið 1. kafla um Auðlinda og flotastjórn – helstu einkenni íslensks sjávarútvegs. Og þar spyrja þeir í Brussel um það hvernig við stjórnum nýtingu á álastofnum, hvernig við mælum afleiðingarnar af mannvirkjagerð í ám á stöðu álastofna og hvernig háttað sé stjórnuninni á þessu þýðingarmikla málasviði.
Þetta er ótrúlegt, en manni er auðvitað miklu betur ljóst nú eftir en áður, hvað hefur dirfið hugsjónabarátuna fyrir ESB aðildinni.
Leikaraskapur í sýndarveruleikanum
Manni verður strax mikið rórra við að vita að stjórnsýslan okkar sé nú önnum kafin við slík verkefni. Öll vitum við að tímanum verður örugglega ekki betur varið. Það eru örugglega þessi verkefni sem almenningur í þessu landi er að kalla eftir. Við vitum að núna getum við öll andað léttar, vitandi að ekkert er gefið eftir að ljúka þessu þýðingarmikla verkefni !
En að gamninu slepptu.Þessi leikaraskapur í sýndaveruleikanum er því miður fyrst og fremst órækur vitnisburður um hvar forgangsröðunin liggur hjá ríkisstjórninni. Það er talið brýnna að vita allt um það hvernig háttað sé stöðu álastofna í ám þar sem mannvirkjagerð hefur farið fram, en að leita leiða fyrir almenning og atvinnulífið í landinu, sem dag hvern senda frá sér neyðaróp.
Það er auðvitað hægt öðrum þræði að gera grín að svona vitleysu þar sem gjörvöllu stjórnkerfinu er beint að því að leysa úr spurningum um aukaatriði. En þetta er grátt gaman. Þessi ósköp eru nefnilega þyngri en tárum taki.
Einar K. Guðfinnsson alþingismaður
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.