Skinkuhorn, rabbabarapæ og Baby Ruth kaka

Matgæðingarnir Þorgils og Viktoría.
Matgæðingarnir Þorgils og Viktoría.

Húnvetningurinn Þorgils Magnússon bæjartæknifræðingur og Selfyssingurinn Viktoría Björk Erlendsdóttir hjúkrunarfræðingur á HSN-Blönduósi voru matgæðingar í 26. tbl. Feykir árið 2018. Þau búa á Blönduósi ásamt þremur börnum sínum Eyjólfi Erni, Sveini Óla og Grétu Björgu.

„Við ætlum að bjóða upp á þrjár uppskriftir sem eru vinsælar á þessu heimili. Ekkert hefur verið eins oft bakað hér en einmitt þessi skinkuhorn, hafa verið notuð í afmælisveislur, nesti og sem hversdags kaffibrauð,“ segja matgæðingarnir.

RÉTTUR 1
Skinkuhorn

100 g smjör
500 ml mjólk
1 pk. þurrger
60 g sykur
900 g hveiti (má vera að hluta til heilhveiti en þá verða þau ekki eins loftmikil)

Fylling:
niðurskorin skinka
smurostur að eigin vali

Aðferð:
Mjólk og smjör er hitað í potti við vægan hita. Þessari blöndu er svo hellt í skál, gerinu dreift yfir og látið leysast upp. Hluta hveitis og sykri hnoðað saman við (geri alltaf í hrærivél og helst í 2-3 mín). Látið hefast á hlýjum stað (set smá volgt vatn í vaskinn og skálina þar ofan í). Mér finnst best að leyfa þessu að hefast í klukkustund. Stillið ofninn á 180 °C og blástur. Restinni af hveiti hnoðað saman við í höndunum ef þörf er á. Skiptið deiginu í fimm hluta og fletjið það út í kringlótta köku, skera í átta parta, fínt að nota pitsahjól. Setjið klípu af smurosti og skinkuna á breiðari endann á hverjum parti. Rúllið upp passið að láta mjóa endann fara undir, annars lyftist hann upp og verður ofbakaður. Raðið á plötu og og bakið í 14-16 mínútur eða þangað til hornin eru orðin fallega gyllt.
Smakkast best nýbökuð en einnig er gott að frysta þau og hita upp.

RÉTTUR 2

Núna er tími rabarbarans og því ekki út vegi að gera þessa dásemd.

Rabarbarapæ

5-6 leggir rabarbari, bestir beint úr garðinum
200 g smjör
1½ dl sykur
1 tsk. lyftiduft
2 dl hveiti
1 tsk. vanillusykur
2 egg
súkkulaðispænir

Aðferð:
Hitið ofninn í 170°C. Hreinsið rabarbarann og brytjið niður í 1 cm sneiðar. Setjið í eldfast mót. Bræðið smjör í potti, þurrefnum bætt út í og blandað saman. Hellið deiginu yfir rabarbarann og súkkulaðispænum dreift yfir.  Bakið í 25-30 mínútur eða þar til það er orðið gyllt. Berið fram með ís.

RÉTTUR 3

Þessi hefur lengi verið í uppáhaldi hjá húsfreyjunni.

Baby Ruth kaka

3 eggjahvítur
175 g sykur
1 tsk. lyftiduft
100 g salthnetur
70 g saltkex 

Krem:
3 eggjarauður
75 g flórsykur
75 g súkkulaði
75 g smjör 

Aðferð:
Hitið ofninn í 180°C. Stífþeytið eggjahvítur og sykur. Myljið kexið og hneturnar. Setjið lyftiduftið saman við og blandið. Kexblandan fer svo varlega saman við eggjahvíturnar. Smyrjið form og bakið í 25-30 mínútur. Kælið.
Bræðið súkkulaði og smjör í potti við vægan hita. Þeytið eggjarauðurnar og sykur þar til það verður þykkt og ljóst. Kælið súkkulaðiblönduna aðeins áður en hún er sett saman við eggjarauðurnar. Setjið kremið á kökuna þegar hún er orðin köld.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir