Skin og skúrir hjá Stólastúlkum í Síkinu um helgina

Olivia Crawford reyndist Stólastúlkum erfið í dag. MYND: ÓAB
Olivia Crawford reyndist Stólastúlkum erfið í dag. MYND: ÓAB

Lið Tindastóls spilaði fyrstu leiki sína í 1. deild kvenna í körfubolta á nýju tímabili í Síkinu nú um helgina. Mótherjinn í þessum tvíhöfða var lið Vestra frá Ísafirði og fór svo að heimastúlkur unnu fyrri leikinn nokkuð örugglega en þær hentu frá sér sigri í seinni leiknum sem fram fór í hádeginu í dag með hræðilegum leik í fjórða leikhluta.

Gestirnir voru þjálfaralausir í gær og kom það sannarlega niður á leik þeirra. Jafnræði var með liðunum framan af en lið Vestra var yfir, 14-16, að loknum fyrsta fjórðungi. Þá tóku heimastúlkur leikinn yfir og leiddu í hálfleik, 39-26. Þær héldu áfram að bæta við forystuna í þriðja leikhluta og voru 21 stigi yfir að honum loknum og þann mun náðu Ísfirðingarnir ekki að vinna neitt niður. Lokatölur 74-54. Eva Wium var frábær í liði Tindastóls með 20 stig, 14 fráköst og sjö stoðsendingar og nafna hennar Dagsdóttir átti sömuleiðis hörkuleik og skilaði 17 stigum og 12 fráköstum.

Nýr leikmaður Tindastóls, Dominique (Nicky) Toussaint er nýsloppin úr sóttkví og því lítið getað æft með stelpunum og hún spilaði rétt rúmlega stundarfjórðung. Hún náði jafnvel minni spilatíma í dag þegar liðin mættust öðru sinni. Það virtist þó ekki ætla að koma að sök því lið Tindastóls leiddi lengstum.

Það voru þó gestirnir sem náðu forystunni í byrjun leiks, komust yfir 0-2, en Nicky jafnaði 2-2 um miðjan leikhlutann. Það var svo ekki fyrr en eftir sjö mínútna leik að eitthvað fór að gerast í stigaskori og lið Tindastóls var 12-8 yfir að loknum fyrsta leikhluta. Ákafinn í liði Tindastóls var mikill bæði í sókn og vörn og þær söfnuðu villum villt og galið í fyrri hálfleik og það átti kannski eftir að draga tennurnar úr varnarleik liðsins á lokakaflanum. Gestirnir héldu í við Stólastúlkur í öðrum leikhluta og hélt Gréta Hjaltadóttir þeim inni í leiknum. Vestrastúlkur minnkuðu muninn í eitt stig rétt fyrir hlé en brutu klaufalega á Evu Rún í 3ja stiga skoti um leið og leiktíminn rann út, hún fékk þrjú víti sem hún setti niður og staðan 25-21 í hálfleik.

Karen Lind, Eva Wium og Marín bjuggu til ágætt forskot í þriðja leikhluta og það var Eva Rún sem setti niður 3ja stiga körfu í byrjun fjórða leikhluta og staðan orðin 44-30 og allt í blóma í Síkinu. Það sem eftir lifði leiks gerðu stelpurnar okkar aðeins fimm stig á meðan gestirnir sölluðu niður körfum með Oliviu Crawford í feiknastuði. Hún hafði lítið gert framan af leik en þegar hún fann taktinn þá héldu henni engin bönd. Það náðist að loka ágætlega á Grétu en stóru körfu leiksins gerði Sara Newman. Hún hafði lítið haft sig í frammi en setti í þrist sem jafnaði leikinn, 46-46, og hún kom liði Vestra síðan yfir í fyrsta sinn síðan í fyrsta leikhluta, 48-50. Og þá var aðeins annað liðið að fara að vinna leikinn og Crawford kláraði dæmið. Lokatölur 49–54 fyrir Vestra.

Pétur Már Sigurðsson, þjálfari Vestra sem nú var mættur á línuna, skipti í svæðisvörn í fjórða leikhluta og við því áttu Stólastúlkur ekkert svar. Lítið gekk að sækja að körfunni og skotin fyrir utan rötuðu ekki rétta leið. Skotnýting liðsins í leiknum var undir 20% innan og utan teigs! Í báðum leikjunum hafði lið Tindastóls betur í frákastabaráttunni, tóku yfir 60 fráköst í hvorum leik, en það er sama hversu mörg fráköst þú tekur, ef þú hittir ekki skotunum þá fæst lítið fyrir snúðinn. Eva Wium var aftur stigahæst í liði Tindastóls með 13 stig en Marín var með 12. Olivia Crawford gerði 27 stig í leiknum en hún var með fimm stig í fyrri hálfleik.

Árni Eggert þarf því augljóslega að fínstilla leik Stólastúlkna og um leið og Nicky lærir inn á samherja sína og íslenska körfuboltann þá ætti allt að ganga betur. Liðið spilaði aðeins einn æfingaleik fyrir mót og það sást á leik liðsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir