„Skil ekki enn að ég hafi ekki fengið raflost...“ / GUÐMUNDUR EGILL
Að þessu sinni vill svo skemmtilega til að það er spekingur í lögum sem svarar Tón-lystinni. Um er að ræða Skagstrendinginn Guðmund Egil Erlendsson (1975) sem víða hefur látið að sér kveða við strengjaslátt. Ég er alinn upp að mestu á Reyðarfirði, Akureyri og í Mosfellsbæ. Guðbjörg móðir, eyrarpúki frá Akureyri og Erlendur faðir minn Sauðkræklingur sem yfirgaf Skagafjörð fyrir grænni haga á austurlandi um 1954.
Hljóðfæri: Ég er rólfær á gítara, banjó, ukulele og bassa.
Helstu tónlistarafrek: Að hafa skilað áhuganum og spilagleðinni áfram í börnin mín sem öll eru föðurbetrungar. Öll afrekin í Populus Tremula á árunum 2004-2014, paunkbandið Blái Hnefinn og samvinna við allt það tónlistarfólk sem ég hef unnið með hingað til er afrek út af fyrir sig, máski meira þeirra afrek en mitt. En upp á síð að stunda gígjuslátt með þeim miklu snillingum sem Skagaströnd byggja í allskonar viðburðum, er búið að vera mjög gefandi.
Uppáhalds tónlistartímabil? 1962-1980 ca. er óhætt að segja að mér sér tamast að sækja í þegar ég er að velja mér tónlist til að hlusta á.
Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Er jafn agalega klofinn í dag og alla aðra daga þegar kemur að vali á tónlist. Hef verið að hlusta á plöturnar með hinum sænsku Söderberg systrum (First Aid Kit), Skálmöld, Carolyn Wonderland og Mumford & Sons af nýju efni.
Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Á mínu heimili ómuðu kappar eins og Johnny Cash, Roger Whitaker, Pink Floyd. Tónlistin úr Grease var spiluð þangað til að vinyllinn var farinn að hljóma eins báðum megin. Þá voru Þrjú á palli, hin Húnverska hljómsveit Lexía, Ellý Vilhjálms og fleiri af íslenskum hljómsveitum einnig spiluð.
Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Fyrsta kassettan var keypt fyrir einhverja smáaura og var plata Pink Floyd, The Final Cut (1983 ) einhverntíma árið 1984.
Hvaða græjur varstu þá með? Man ekki tegundarheitið en þetta var combo græja sem mér hafði einhversstaðar áskotnast með S/H sjónvarpi í öðrum endanum, tape og útvarpi í hinum endanum og plötuspilara í miðjunni. Ef ég ætlaði að hlusta á útvarp eða spólu þurfti ég að tína lampa úr sjónvarpinu og hlaða í magnarann og svo öfugt ef ég vildi horfa á TV. Skil ekki enn að ég hafi ekki fengið raflost og drepið mig.
Hver var fyrsta platan sem þú óskaðir þér í jólagjöf (eða fyrsta lagið sem þú mannst eftir að hafa fílað í botn)? Fyrsta einstaka lagið sem ég man eftir að hafa spilað aftur og aftur, var með Pogues og Kirsty MacColl (1987-1988 ca) og hér Fairytale of New York. Tók ég þetta upp á kassettu til að hafa með mér í vasadiskóinu þegar ég fór í sveitina það sumarið og mig minnir að þó að á annari hliðinni hafi verið Pet shop Boys, Erasure, Kiss og Billy Idol þá var þetta lag undirlagt á hinni hliðinni.
Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Allt með Bubba Morthens eftir 1985 er leiðinlegt lag.
Uppáhalds Júróvisjónlagið (erlent eða innlent eða bæði)? Frú Sonja er Eurovision sérfræðingur heimilisins og hef ég oftar en ekki grátið af gremju í aðdraganda keppnanna af offramboði efnisins. Mér finnst þó sigurlagið 1996 í Eurovision alltaf flott, The Voice með Eimear Quinn.
Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Abba (fyrir frúna).
Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Cohen.
Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? París, Tom Waits og eiginkonan með í för.
Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Megas.
Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Sögur úr Klandurbæ, (2007).
Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? (lag/flytjandi)
Kvaðning / Skálmöld
I Live Alone With Someone / Carolyn Wonderland
When the Lights Go Out / Black Keys
Ballad in Plain D / Bob Dylan
The Partisan /Leonard Cohen
Paranoid Eyes / Pink Floyd
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.