Skautafélagið sterkara á svellinu
Skautafélag Reykjavíkur tók á móti liði Kormáks/Hvatar í 4. deildinni sl. föstudagskvöld og var leikið á Eimskipsvellinum í landi Þróttara. Heimaliðið átti möguleika á sæti í úrslitakeppni deildarinnar en þurfti nauðsynlega að vinna leikinn til að halda þeirri smugu opinni. Það hafðist sem þýðir að Húnvetningar eru enn ekki búnir að tryggja sér sætið en þeir þurfa að næla í stig í lokaleik sínum í B-riðli.
Skautafélagið fékk fljúgandi start en Jóhannes Sólmundarson kom þeim yfir eftir fimm mínútna leik. Breki Einarsson bætti við marki á 19. mínútu og heimamenn með góða stöðu í hálfleik. Gamla markamaskínan Hjörtur Hjartarson kom liði SR í 3-0 þegar klukkutími var liðinn af leik en gestirnir voru ekkert á þeim buxunum að gefast upp. Viktor Ingi Jónsson minnkaði muninn á 73. mínútu og á fyrstu mínútu uppbótartíma bætti Sigurður Aadnegard við öðru marki Kormáks/Hvatar. Jöfnunarmarkið lét hins vegar ekki sjá sig og því enn spenna í B-riðli 4. deildar.
Fyrir leik hafði Kormákur/Hvöt unnið átta leiki í röð og liðið langt komið með að tryggja sér sæti í úrslitakeppni 4. deildar. Liðið er nú með 25 stig, tveimur stigum minna en lið KFR sem hefur lokið leik í deildinni. Skautafélagið er með 20 stig og á tvo leiki eftir og getur því mest fengið 26 stig. Húnvetningarnir spila lokaleik sinn gegn Stokkseyri á Blönduósvelli en Austfirðingar eru með 14 stig og eiga tvo leiki eftir. Jafntefli gæti mögulega dugað heimamönnum en sigur tryggir efsta sætið í riðlinum og að sjálfsögðu sæti í úrslitunum en tvö efstu liðin komast í þau.
Koma svo Kormákur/Hvöt!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.