Skagfirðingar á palli á Íslandsmóti í crossfit

Fræknir kappar á Íslandsmóti í crossfit Ægir Björn Gunnsteinsson og Haukur Rafn Sigurðsson. Mynd: Sigurður B.
Fræknir kappar á Íslandsmóti í crossfit Ægir Björn Gunnsteinsson og Haukur Rafn Sigurðsson. Mynd: Sigurður B.

Íslandsmótið í crossfit fór fram um helgina í CrossFit Reykjavík en um svokallaða boðskeppni var að ræða þar sem tólf efstu á Íslandi í Open, sem er alþjóðleg netkeppni á vegum crossfit, fengu sæti á mótinu. Þrír Skagfirðingar fengu þetta boð, Áslaug Jóhannsdóttir, Haukur Rafn Sigurðsson og Ægir Björn Gunnsteinsson.

Áslaug tók ekki þátt í keppninni þar sem hún á við meiðsli að stríða en drengirnir mættu og enduðu báðir á palli. Haukur Rafn keppti í unglingaflokki og landaði öðru sætinu en Ægir endaði í því 3. í opnum flokki.

„Já ég var á boðslistanum og ætlaði að taka þátt, en öxlin vildi ekki vera með mér í liði þannig að ég varð að afboða mig sem var frekar fúlt af því að mér var búið að ganga ágætlega í Open í ár. Það gengur vonandi bara betur næst,“ segir Áslaug.

„Ég er mjög ánægður með þennan árangur, hefði auðvitað viljað ná fyrsta sætinu en ég lærði helling um það í hverju ég þarf að vera betri til þess að ná því sæti næst,“ segir Ægir.

Langtímamarkmiðið, segir hann vara það að komast á heimsleikana, en einnig að sjá hversu langt hann getur náð í þessu sporti. „Ég byrjaði seint að keppa og hef bara X langan tíma til að vera keppnishæfur í þessu sporti en ég hef bara mjög gaman af þessu og mig langar að keppa á meðan að ég nýt þess og get keppt á þetta háu leveli.“

Ægir í einni þrautinni á Íslandsmótinui.
Mynd: Þórunn K. Björgvinsdóttir

Hann segir það jafnast á við fulla vinnu að æfa fyrir svona mót. Að lágmarki þarf að æfa þrjá tíma á dag til að eiga möguleika á að komast inn á svona mót sem einnig krefst fjölbreyttra æfinga. „Þetta er ekki bara hlaup eða bara sund heldur lyftingar, fimmleikar og allt annað sem tengist hreyfingu á einhvern hátt. Ég sjálfur er að æfa núna 5-6 tíma á dag og hækkaði æfingarálagið mitt töluvert um áramótin og til þess að reyna að komast á semifinals fyrir heimsleikana, sem ég var ekki nema nokkrum sætum frá,“ segir hann sem bindur miklar vonir við að komast inn á næsta ár. Hann segist mjög þakklátur fyrir stuðninginn sem hann fær frá fólkinu sínu og er þakklátur fyrir að fá að keppa í þessari krefjandi íþrótt.

Haukur Rafn er 15 ára gamall og er í tíunda bekk Árskóla á Sauðárkróki og segist hann hafa æft íþróttina í u.þ.b. tvö til þrjú ár. „Það sem mér finnst skemmtilegast við íþróttina er yfirleitt geðveika stemmingin og erfiðu æfingarnar. Mér gekk bara hrikalega vel í keppninni miðað við hvað þetta kom óvænt upp á,“ segir hann.

Ásamt því að gera eins vel og hann getur í crossfit open quarterfinals æfir hann af kappi fyrir skólahreysti sem hefst í lok mánaðarins. Til þess að lesendur geti glöggvað sig betur á Hauki þá eru foreldrar hans þau Sigurður Bjarni Rafnsson og Ingibjörg Ásta Sigurðardóttir.

Hægt er að nálgast úrslit HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir