Skagfirðingafélagið í endurnýjun lífdaga
Um þrjátíu manns mættu á aðalfund Skagfirðingafélagsins í Reykjvík sem haldinn var í gær, 19. apríl. Fyrir fundinum lá að endurreisa félagið sem legið hefur í dvala síðustu ár og að kjósa nýja stjórn. Steinunn Ingimarsdóttir (Denna) frá Flugumýri flutti formannspistil og rakti í stuttu máli sögu félagsins og þróun mála síðustu ár.
Að beiðni fundarstjóra, Gunnars S. Björnssonar frá Bæ, stóðu svo fundargestir upp einn af öðrum og gerðu grein fyrir sér að gömlum og góðum sið. Að því loknu var gengið til stjórnarkjörs, en nýju stjórnina skipar að stærstum hluta sá hópur sem stóð fyrir Skagfirðingablóti í Reykjavík í febrúar sl. Auður S. Hreinsdóttir (Lúlla) er nýr formaður Skagfirðingafélagsins í Reykjavík, og með henni starfa í stjórn þau Ragnheiður Ástvaldsdóttir, Hulda Jónasdóttir, Jón Þór Bjarnason, Birkir Már Árnason, Styrmir Gíslason og Ágúst Kárason.
Að loknu stjórnarkjöri gerði Jón Þór í stuttu mál grein fyrir hugmyndum hópsins, en stefnt er að því að halda viðburði 3-4 sinnum á ári fyrir Skagafirðinga á suðursvæði landsins. Á haustmánuðum er stefnt að því að vera með skagfirskt matar- og skemmtikvöld í Reykjavík. Endurskoðendur fyrir félagið voru kjörnir Ómar Örn Bjarnason og Valgerður Friðriksdóttir. Framhald aðalfundarins í gær verður að hausti, þar sem ný stjórn gerir nánar grein fyrir stöðu félagsins og framtíðarstefnu.
- Skagfirðingafélagið í Reykjavík
- Háulind 32
- 201 Kópavogur
- Sími 898 1766 (Lúlla)
- Netfang: skagfirdingafelagid@gmail.com
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.