Skagenröra á íslensku rúgbrauði

Það eru þau Sandra Magdalena Granquist og Haraldur Friðrik Arason á Hvammstanga sem eiga uppskriftir vikunnar að þessu sinni. Þau Sandra og Haraldur ákváðu að elda með svolitlu sænsku ívafi þar sem Sandra er fædd og uppalin í Svíþjóð. “Skagenröra” er mjög klassískur forréttur í Svíþjóð, hér borinn fram á íslensku rúgbrauði. Kryddið saffran er einnig mikið notað í matargerð og bakstur í Svíþjóð.

(Uppskriftirnar eru fyrir 4)

Forréttur:

  • Skagenröra á íslensku rúgbrauði
  • 200 gr handpillaðar rækjur
  • 1,5 dl majónes
  • Ferskt dill
  • Safi úr ½ sítrónu
  • Kál

Majónesi, rækjum og sítrónusafa er blandað saman. Kryddað með salti og pipar. Berið fram á íslensku rúgbrauði og skreytið með káli, fersku dilli og gjarnan sítrónusneið.

 

Aðalréttur

Fiskisúpa með saffrans aioli

  • Saffrans aioli
  • 2dl sýrður rjómi
  • 1-2 hvítlauksrif
  • 0,5g saffran (má sleppa)

Blandað saman í skál.

 

Fiskisúpa

  • Fiskur að eigin vali 400g (t.d. ýsa eða lax)
  • Rækjur, humarhalar og/eða kræklingar 1 dl hvítvín
  • Gulrætur
  • Kartöflur
  • 2 hvítlauksrif
  • 3 matskeiðar tómatmauk
  • 1 teningur fiskikraftur
  • 2 ferskir tómatar
  • Salt og pipar

 

Byrjið á að skera gulrætur og kartöflur í stóra teninga og steikið í olíu og hvítvíni. Látið svo sjóða í smá stund, saman með tómatmauki, fiskikrafti og smá vatni. Ferskum tómötum er svo bætt við og loks fiskinum. Látið sjóða við lágan hita þar til fiskurinn er tilbúinn (ca. 10 mín). Rækjum, humarhölum og/eða kræklingum er bætt við í lokin.

Berið fram í djúpum diskum og setjið smá aioli úti súpuna.

 

Eftirréttur

  • Sumarlegur ísdrykkur
  • 0,5 l vanilluís
  • 3dl mjólk
  • 1 banani
  • Súkkulaði með 70% kakóinnihaldi (eða suðusúkkulaði)
  • Blandað saman með töfrasprota.
  • Berið fram í háum glösum með röri.

 

Verði ykkur að góðu!

(Áður birt í Feyki 2010)

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir