Skagafjörður auglýsir lausar stöður tveggja sviðsstjóra
Í Sjónhorni vikunnar má sjá auglýsingar um störf tveggja sviðsstjóra hjá sveitarfélaginu Skagafirði. Annars vegar er um að ræða stöðu sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs og hins vegar sviðsstjóra veitu- og framkvæmdasviðs, en þetta eru afar spennandi störf.
Feykir aflaði sér upplýsinga um hvað kæmi til að auglýst væri eftir tveimur sviðsstjórum á sama tíma. Í svörum kom fram að fyrri auglýsingin væri í samræmi við tillögur í skýrslu HLH ehf og ákvörðun byggðarráðs Skagafjarðar. Þar er lagt upp með að sérstakt stöðugildi sviðsstjóra verði fyrir stjórnsýslu- og fjármálasvið og sérstakt stöðugildi fyrir fjármálastjóra en í dag gegnir sami einstaklingur báðum hlutverkum.
Með breytingunum er ætlunin að ná betur utan um annars vegar stjórnsýsluleg verkefni sem hafa aukist mjög á liðnum árum og hins vegar að skapa betri starfsaðstæður fyrir fjármálastjóra. Núverandi sviðsstjóri mun eftir sem áður sinna starfi fjármálastjóra samkvæmt upplýsingum Feykis.
Hin auglýsingin er komin til vegna breyttra aðstæðna hjá núverandi sviðsstjóra veitu- og framkvæmdasviðs sem mun færa sig inn í afmörkuð verkefni og verkefnastýringu hjá sveitarfélaginu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.