Sjúkrahússtjórnir verði endurreistar

Á flokksráðsfundi VG sem hefst á Akureyri í dag verður tekin fyrir ályktunartillaga frá VG í Skagafirði þar sem þess er krafist að látið verði af miðstýringaráráttu í heilbrigðisþjónustu sem beinist ekki síst gegn heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Framkvæmd niðurskurðar til heilbrigðisstofnanna á landsbyggðinni er sögð vafasöm og hvatt er til þess að endurreistar verði stjórnir heilbrigðisstofanna til að veita heilbrigðisyfirvöldum aðhald.

Lagt er til að heilbrigðisráðherra og þingmönnum flokksins verði falið að beita sér fyrir lagabreytingu sem feli í sér að við“hverja heilbrigðisstofnun verði sett stjórn skipuð fulltrúum sveitarstjórna og annarra hagsmunaaðila í heimahéraði sem veitir ráðuneyti og framkvæmdastjórn heilbrigðisstofnunar aðhald og sé jafnframt ráðgefandi í stefnumörkun og forgangsröðun verkefna hjá viðkomandi heilbrigðisstofnun.”

Tillagan í heild sinni:  Flokksráðfundur Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs haldinn á Akureyri 15. og 16. janúar 2010, ítrekar mikilvægi heilbrigðisþjónustu og heilsugæslu um allt land. Sérstök áhersla er lögð á að standa vörð um þjónustuna á hinum minni heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni þar sem erfitt er að beita hreinum reiknisstokksaðferðum við ákvörðun fjárveitinga. Flokksráðsfundurinn lýsir áhyggjum sínum yfir þeim mikla niðurskurði sem boðaður er í heilbrigðiskerfinu og bitnar ekki síst á minni heilbrigðisstofnunum í dreifbýlinu. Þessi mikli niðurskurður er í besta falli vafasamur og má ekki verða til þess að höggva á grunnbyggingu heilbrigðis- og velferðarkerfisins í öllu landinu. Fundurinn skorar á þingmenn flokksins og heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir að lögum um heilbrigðisþjónustu verði breytt á þá lund að við hverja heilbrigðisstofnun verði sett stjórn skipuð fulltrúum sveitarstjórna og annarra hagsmunaaðila í heimahéraði sem veitir ráðuneyti og framkvæmdastjórn heilbrigðisstofnunar aðhald og sé jafnframt ráðgefandi í stefnumörkun og forgangsröðun verkefna hjá viðkomandi heilbrigðisstofnun. Aðkoma heimamanna er ekki hvað síst mikilvæg nú þegar að ljóst er að standa þarf fyrir sársaukafullum aðgerðum. Varað er við miðstýringaráráttu sem reynslan segir að til lengri tíma skilar engum heildarsparnaði sem dæmin hafa svo oft sýnt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir