Sjóvá opnar skrifstofu á Króknum
Sjóvá hefur opnað á nýjan leik umboð sitt að Skagfirðingabraut 9a. Eins og lesendum Feykis er kunnugt um sleit Sparisjóður Skagafjarðar samstarfi sínu við Sjóvá og tók upp samstarf við VÍS. Frá því það gerðist hafa farið fram miklar endurbætur á húsnæði Sjóvár og á sama tíma var auglýst eftir nýjum umboðsaðila félagsins í Skagafirði.
Karl Jónsson, sem áður starfaði hjá Sparisjóði Skagafjarðar sem tryggingafulltrúi, hefur nú tekið við sem umboðsmaður Sjóvár og hefur opnað skrifstofu félagsins að nýju.
– Þetta leggst vel í mig, Sjóvá ætlar að halda hér úti góðri þjónustu hér eftir sem hingað til og bjóða upp á alvöru samkeppni á svæðinu í tryggingageiranum, segir Karl. – Húsnæðið hefur nú allt verið tekið í gegn og er hér bjart og fagurt um að litast. Maður vill ná árangri í starfi það er ekkert öðruvísi, annars hefði maður ekki sótt um að fá umboðið, sagði Karl sem telur mikil sóknarfæri á svæðinu fyrir tryggingafélagið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.