Sjötti sigur Stólanna í röð kom gegn meisturum Þórs

Grettismenn verða pottþétt mættir til leiks á fimmtudaginn. En þú? MYND: DAVÍÐ MÁR
Grettismenn verða pottþétt mættir til leiks á fimmtudaginn. En þú? MYND: DAVÍÐ MÁR

Það er heldur betur stuð á Stólastrákunum í körfunni þessa dagana. Í kvöld kláraðist næst síðasta umferðin í Subway-deildinni og andstæðingar Tindastóls voru Íslandsmeistarar Þórs úr Þorlákshöfn sem hafa spilað liða best í vetur. Þeir fóru illa með okkar menn hér í Síkinu í desember, unnu með 43 stigum og flestum stuðningsmönnum varð flökurt. En ekki í kvöld. Stólarnir komu, sáu og sigruðu í Þorlákshöfn, gáfu aldrei þumlung eftir eða eins og Baldur Þór þjálfari orðaði það: „Svakaleg orka og ákafi í liðinu.“ Lokatölur voru 85-91 og Stólarnir sækja fast í að ná fjórða sætinu og þannig heimavallarréttinum í úrslitakeppninni.

Vörn Tindastóls var hreifanleg og áköf og það varð fljótt ljóst að skot heimamanna voru ekki á pari við skotnýtingu þeirra í Síkinu fyrir áramót þegar öll skot voru góð og flest gáfu stig á töfluna. Bæði lið spiluðu hraðan bolta og leikurinn var hin besta skemmtun þó hraðinn bæri fegurðina stundum ofurliði. Jafnt var á flestum tölum framan af leik en Stólarnir náðu fimm stiga forystu, 12-17, eftir ríflega sjö mínútna leik. Körfur frá Badmus og Bess tryggðu Stólunum sjö stiga forystu áður en fyrsti leikhluti var úti, 16-23. Þórsarar áttu góðan kafla fyrstu mínútur annars leikhluta og Massarelli jafnaði með þristi, 28-28, þegar fjórar mínútur voru liðnar. Stólarnir gáfu þó ekkert eftir og næstu mínútur skiptust liðin á um að hafa forystuna. Bess kom Stólunum fjórum stigum yfir skömmu fyrir hlé en besti maður Þórs í kvöld, Daniel Mortensen, setti niður einn af fjórum þristum sínum rétt áður en flautað var til hálfleiks. Staðan 42-43.

Þórsarar komust fjórum stigum yfir í upphafi síðari hálfleiks en Tindastólsmenn hleyptu þeim ekkert frá sér og voru fljótir að jafna leikinn á ný. Arnar kom Stólunum yfir, 53-54, með eina þristi sínum í kvöld og næstu mínútur var allt í járnum. Bess kláraði þriðja leikhlutann með laglegri körfu og sá til þess að Stólarnir voru einu stigi yfir áður en lokafjórðungurinn hófst, 64-65. Stólarnir hófu síðan fjórða leikhluta með því að setja niður fjóra þrista; Axel bar ábyrgð á tveimur og Pétur og Bess sitt hvorum og þetta skilaði gestunum níu stiga forystu eftir eina og hálfa mínútu, 68-77, og Lalli tók leikhlé fyrir Þórsarar sem gerðu fimm stig í kjölfarið en Pétur sló þá út af laginu með einum þristi til. Enn jókst hraðinn og svolítil örvænting gerði vart við sig hjá heimamönnum sem sáu fram á að missa toppsæti deildarinnar í hendurnar á Njarðvíkingum. Bæði lið gerðu sig sek um mistök í næstu sóknum – já og ákafa í varnarleiknum – og smám saman fækkaði sekúndunum sem heimamenn höfðu til að næla í sigur.

Geta í besta falli endað í þriðja sæti en í versta falli því sjötta

Góður leikur Tindastóls í kvöld á báðum endum vallarins skilaði tveimur stigum í hús og sjötta sigri liðsins í röð. Javon Bess átti stjörnuleik í kvöld, skilaði 28 stigum og var með 67% skotnýtingu innan og utan 3ja stiga línunnar. Hann tók einnig fimm fráköst og átti fimm stoðsendingar. Arnar var með 15 stig en fann ekki réttu fjalirnar í Þorlákshöfn, Taiwo og Pétur gerðu báðir 12 stig og Siggi var með tíu en hann var drjúgur á upphafsmínútum leiksins. Þá dúkkuðu Axel og Vrkic upp með sex stig hvor. Stigahæstir í liði Þórs voru Morensen með 24 og Kyle Johnson með 22. Glynn Watson, sem var óstöðvandi í fyrri leik liðanna, gerði aðeins fimm stig og var ekki sjálfum sér líkur.

Fyrir rétt rúmum mánuði höfðu stuðningsmenn Stólanna áhyggjur af því hvort liðið næði að skila sér í úrslitakeppnina en nú er liðið í séns með að ná heimavallarréttinum. Að 21. umferð lokinni eru Stólarnir í fimmta sæti með 24 stig líkt og Valur en Valsmenn höfðu betur í innbyrðisviðureignum liðanna í vetur. Keflvíkingar eru sem stendur í þriðja sæti en þeir mæta Njarðvíkingum í síðustu umferð sem vilja eflaust tryggja sér deildarmeistaratitil á heimavelli sínum. Stólarnir mæti Þór frá Akureyri í Síkinu og Valur mætir KR í Vesturbænum. Lið Tindastóls gæti best endað í þriðja sæti deildarinnar og verst í sjötta sætinu.

Lokaumferðin fer fram nú á fimmtudagskvöldið og hefjast allir leikirnir kl. 19:15. Nú mæta allir stuðningsmenn í Síkið og fagna frábærri frammistöðu Tindastóls.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir