Sjómannahátíð á Skagaströnd á laugardag

Skagstrendingar munu fagna Sjómannadeginum með glæsibrag nú á laugardag. Hátíðarhöldin munu hefjast með skrúðgöngu frá höfninni  kl. 10:30 en þá munu bæjarbúar ganga saman til sjómannamessu.

Í messunnu mun kór sjómanna sjá um allan söng við athöfnina og herma fréttir að þetta verði allt saman með léttu yfirbragði í tilefni dagsins.

Skemmtisigling verður auðvitað á sínum stað og hefst hún kl 13:15.
Að skemmtisiglingu lokinni hefst dagskrá hátíðarhaldanna með fallbyssuskoti líkt og gert var á síðasta sjómannadegi. Að því búnu er kappróður og því næst leikir á plani.

Verður margt í boði og má þar nefna kappleiki, þrautir og dans ásamt því að heiðraðir verða tveir sjómenn.

Sjoppan á planinu verður að sjálfsögðu á sínum stað fyrir þá sem ekki geta beðið eftir að kaffisalan opni kl. 15:30 í félagsheimilinu Fellsborg.  Kaffið kostar 1000 kr. fyrir fullorðin en 800 fyrir börn og eldriborgara.

Ungur listamaður að nafni Þórður Indriði Björnsson verður með sýningu á myndum unnum í Photoshop á meðan á kaffisölu stendur.  

Rúsínan í pylsuendanum er svo auðvitað stórdansleikur um kvöldið í Fellsborg með Matta og Draugabönunum. Þar verður án efa dúndrandi stuð fram eftir nóttu.

Aðgangseyrir er 2.500 kr. og aldurstakmark 16 ár.

Í tilkynningu á heimasíðu Skagstrandar kemur fram að
Björgunarsveitin Strönd óskar sjómönnum til hamingju með daginn og vonar að allir skemmti sér sem best á þessum hátíðisdegi

Feykir skorar á sem flesta að gera sér ferð á Skagaströnd um helgina og njóta dagsins með heimamönnum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir