Sigurdís Sandra Tryggvadóttir gefur út sitt fyrsta lag
Tónlistarkonan Sigurdís Sandra Tryggvadóttir gefur út í dag sitt fyrsta lag, gamla dægurlagið I Get Along Without You Very Well sem hún hefur sett í glænýjan búning. Sigurdís byrjaði að læra á píanó sjö ára gömul við Tónlistarskóla Austur-Húnvatnssýslu og útskrifaðist af listnámsbraut frá Menntaskólanum á Akureyri árið 2013 og lauk samhliða framhaldsprófi í klassískum píanóleik frá Tónlistarskólanum á Akureyri.
Í samtali við Feyki segir Sigurdís leiðina hafa svo legið til Reykjavíkur þar sem hún hóf rytmískt (jazz) nám við Tónlistarskóla FÍH. Þaðan útskrifaðist hún með kennarapróf og burtfararpróf í jazzpíanóleik árið 2017.
„Ég flutti svo til Danmerkur til að hefja nám við Syddansk Musikkonservatorium í Óðinsvéum. Þaðan lauk ég bachelornámi í jazzpíanóleik sumarið 2021 og mun ljúka kandídatsnámi í tónsmíðum og jazzpíanóleik nú í sumar. Árin hér úti hafa verið frábær þó brekkan hafi verið brött til að byrja með þar sem flestir jazznemendur á háskólastigi byrja að læra jazz á unglingsaldri eða yngri, ekki eftir tvítugt eins og ég. Tónlistarnám á þessu stigi krefst líka mikils sjálfsaga þar sem vikulegir kennslutímar eru tiltölulega fáir, en í staðinn eyðir maður gríðarlegum tíma einn inn í stofu að æfa á hljóðfærið sitt, semja, útsetja, eða hvað sem maður er að vinna að tónlistartengt.“
Hún segir heppnina hafa verið með sér þegar hún kynntist mjög virtum og framúrskarandi tónlistarmanni og kennara, David Braid, sem kom sem gestaprófessor til skólans árið 2018. „Að mínu mati er það mjög persónubundið hvaða kennari hentar hvaða nemanda, sérstaklega í framhaldsnámi í tónlist og í þessum fyrsta tíma okkar small bara eitthvað. Ég hef sótt reglulega tíma hjá honum síðan þá, fyrst í gegnum netið þar sem hann var búsettur í Kanada en nú flýg ég reglulega til Portúgal þar sem hann býr nú. Ég fór í helgarferð í september, tíu daga ferð núna í febrúar og svo eru alla vega tvær ferðir á stefnuskránni seinna í ár.“
Margt spennandi hefur Sigurdís fengist við seinustu árin, m.a. skrifað og útsett þrjú stórsveitarverk, flutt af Stórsveit Reykjavíkur og Odense Jazz Orchestra, samið verk fyrir Odense Kammerkor við ljóðið Ísland eftir afabróður sinn Jónas Tryggvason, lært hjá frábærum kennurum, kynnst og spilað með fjölmörgu tónlistarfólki.
„Núna fannst mér rétti tíminn til að taka nýtt skref og gefa út mitt fyrsta lag. Þetta er ekki bara mín frumraun í lagaútgáfu, heldur einnig mín fyrstu skref sem söngkona. Það er nýlega sem ég byrjaði að fara í söngtíma og mér finnst ótrúlega gaman að vera nú með tvö hljóðfæri, píanóið og röddina,“ útskýrir hún en lagið sem Sigurdís gefur út í dag er hennar endursköpun af gömlu dægurlagi, I Get Along Without You Very Well, samið af Hoagy Carmichael árið 1939.
„Textinn, sem er byggður á ljóði eftir Jane Brown Thompson, fjallar um erfiðleikana við að komast yfir ástarsorg. Sögupersónan reynir að sannfæra sjálfan sig um að hún sé búin að jafna sig, en það er augljóst að svo er ekki. Minningar flæða fram og einmanaleikinn og hjartasorgin umlykur allt.“
Lag Sigurdísar má finna á öllum helstu streymisveitum, svo sem Youtube og Spotify, en svo er hægt að fylgjast með þessari mögnuðu tónlistarkonu og tónlistinni hennar á Facebook og Instagram
Tengd frétt: Sigurdís Sandra fetar í fótspor afabróður síns, Jónasar Tryggvasonar, og semur kórverk
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.