Sigríður Garðarsdóttir stóð uppi sem sigurvegari

Sigga með bikarinn sem hún tók við í vinnunni að sjálfsögðu. MYND AF FB-SÍÐU GSS
Sigga með bikarinn sem hún tók við í vinnunni að sjálfsögðu. MYND AF FB-SÍÐU GSS

Meistaramót GSS í holukeppni lauk nú í lok sumars og var það Sigríður Garðarsdóttir sigraði að lokum eftir úrslitaviðureign við Sylvíu Dögg Gunnarsdóttur. Sigga vann leikinn á 14. holu og er þar með sigurvegari Meistaramóts GSS 2022.

Alls voru 22 keppendur skráðir til leiks í holukeppninni en þar er keppt í einstaklings viðureignum í útsláttarkeppni þar til einn stendur uppi sem sigurvegari.

Á leið sinni að sigrinum spilaði Sigga fyrst við Ingva Þór Óskarsson, þá var næst Una Guðmundsdóttir en í undanúrslitum mætti hún Sigríði Svavarsdóttur, formanni GSS. Í úrslitum mætti hún sem fyrr segir Sylvíu Dögg bekkjarsystur sinni. Sigga segir að það sé gaman að segja frá því að það hafi einmitt verið Sylvía sem hringdi í hana klukkutíma áður en skráningu í mótið lauk og skoraði á hana að taka þátt í mótinu. Þá vissi Sigga ekki einu sinni hvernig holukeppnin virkar og í fyrstu viðureigninni þurfti Ingvi að kenna henni hvernig keppnin virkaði.

Hvenær byrjaðir þú að stunda golf? „Sumarið 2019 fór ég á byrjendanámskeið, eiginlega vegna þess að krakkarnir voru byrjaðir í golfi. Það er svolítið erfitt að vera caddy og kunna ekki neitt. Áhuginn verður alltaf meiri og meiri og í sumar náði ég markmiði sumarsins sem var að komast undir 40 í forgjöf! Það náðist á Steinullarmótinu í lok ágúst,“ segir Sigga sátt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir