Sexþúsund áttatíu og fimm milljónir

Í 64. gr. sveitarstjórnarlaga (138/2011) er fjallað um viðmiðanir um afkomu og fjárhagsstöðu sveitarfélaga og tekið fram að heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta sveitarsjóðs í reikningsskilum séu ekki hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum. 

Ef sveitarfélag fer yfir þessi 150% þýðir það að sveitarfélagið er sett í gjörgæslu og ráðuneytið yfirtekur fjárhagslega stjórn þess. 

Því miður virðast margir sveitarstjórnarmenn telja að allt sé í stakasta lagi ef skuldir sveitarfélagsins eru undir þessum mörkum og bóka jafnvel sérstaklega um það við afgreiðslu ársreikninga. 

Það gerðist á sveitarsjórnarfundi sveitarfélagsins Skagafjörður þann 25. apríl sl. þar sem fram fór fyrri umræða um ársreikninga 2017. Í fundargerð kemur fram að skuldir og skuldbindingar voru í árslok 2017 samtals 6.085 millj. króna, þar af hjá A-hluta 4.985 millj. króna. Langtímaskuldir námu alls 3.359 millj. króna hjá A og B hluta auk 593 millj. króna næsta árs afborgana. 

Og fjármagnsgjöldin eru eftir því: “Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru hjá samstæðunni í heild samtals um 203 millj. króna, þ.a. eru 150 millj. króna fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur í A-hluta sveitarsjóðs.” 

Í fundargerð er jafnframt bókað: “Í 64.gr. nýrra sveitarstjórnarlaga er kveðið á um að heildarskuldir og skuldbindingar A og B hluta í reikningsskilum skv. 60. gr. megi ekki vera hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum. Frá heildarskuldum og skuldbindingum er heimilt að draga frá hluta lífeyrisskuldbindinga sem og tekjur og skuldir veitna. Hjá Sveitarfélaginu Skagafirði er skuldahlutfall í ársreikningi fyrir árið 2017, 117,1% án þess að dreginn sé frá sá hluti af heildarskuldum sem heimilað er í lögum og reglugerð. Skuldaviðmið er 108% þegar búið er að draga frá það sem heimilað er vegna lífeyrisskuldbindinga.” 

Það er ekki vinsælt að tala um skuldir á kosningaári, en það má velta því fyrir sér hversu lengi það gengur að skuldir sveitarfálagsins hækki (í krónum talið) ár frá ári með tilheyrandi vaxta- og fjármagnskostnaði. 

Nú eru miklar framkvæmdir í gangi á vegum sveitarfélagsins, sumar nauðsynlegar og tímabærar, aðrar ævintýralegar og illa ígrundaðar og ljóst að skuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins munu enn hækka á þessu ári, enda kosningaár. 

Ég veit að svar við þessari gagnrýni mundi fjalla um rekstur, veltufé, handbært fé, skuldahlutfall fyrri ára o.s.frv. en það breytir því ekki að skuldir sveitarfélagsins eru of háar miðað við þann íbúafjölda sem undir þeim stendur. 

Þó að rekstrarumhverfi sveitarfélaga hafi almennt verið að batna á landinu þá væri gott ef eitthvert framboð hefði það á stefnuskrá sinni að lækka skuldirnar og þar með þær gífurlegu fjárhæðir sem fara í fjármagnskostnað.

 

Gleðilegt sumar, Gísli Gunnarsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir