Sérstakt ár sem lengi verður í minnum haft – því miður – í Fljótum

Há vatnsstaða er í Miklavatni í Fljótum. Lengst til vinstri má sjá Brúnastaði en Ketilás er hægra megin við miðja mynd. MYND: HALLDÓR GUNNAR
Há vatnsstaða er í Miklavatni í Fljótum. Lengst til vinstri má sjá Brúnastaði en Ketilás er hægra megin við miðja mynd. MYND: HALLDÓR GUNNAR

Sagt var frá því í Feyki í gær að sláttur hefði hafist um síðustu helgi í Skagafirði. Það gildir að sjálfsögðu ekki um Fljótin frekar en vant er enda eru þau annáluð snjóakista og gróður tekur oftar en ekki seinna við sér þar en annars staðar í Skagafirði. Ekki bætir úr skák núna að vatnsstaða Miklavatns er býsna há þessa dagana vegna vatnavaxta. Halldór Gunnar Hálfdansson, bóndi á Molastöðum, segir að auk þess virðist sem fyrirstaða sé á ósavæði Miklavatns. „Tún og engjar eru víða komnar á kaf en vatnshæðin hefur sjaldan verið jafn há og hún er þessa dagana,“ segir hann.

Feykir hafði samband og spurði hvort þetta horfði til betri vegar. „Við sjáum ekki að vatnshæðin minnki í bráð vegna vatnavaxta og fyrrnefndrar fyrirstöðu í ósnum. Það er enginn byrjaður að slá, gróðurfar er ca. þremur vikum seinna en í meðalári, sjálfsagt hefst heyskapur ekki í fyrsta lagi fyrr en 20. júlí en það var reyndar líka þannig árið 2020 eftir leiðindaveturinn 2019-2020.“

Höfðu júníhretið og kuldatíðin í vor einhverja eftirmála í Fljótum? „Hretið í júní hafði mikil áhrif á lambfé í Fljótunum og jafnvel á annað dýralíf þó það eigi ef til vill eftir að koma í ljós. Þeir bændur sem voru komnir með lambfé út tóku það allt inn í hretinu en það er mjög erfitt og krefjandi, enda fjárhús okkar ekki hönnuð í það. Lömb villtust frá mæðrum sínum inni og alls konar pestir geta farið af stað við slíkar aðstæður,“ segir Halldór sem bætir við að þetta hafi hann aldrei þurft að gera frá því að þau hjónin hófu búskap árið 1997.

„Þegar snjóa leysti komu í ljós miklar kalskemmdir í túnum í Fljótum líkt og víða á Norðurlandi og hafa bændur verið að plægja og endurrækta þau tún. Þess má líka að við á Molastöðum höfum aldrei lent í því fyrr að fá kal í tún enda hefur snjórinn séð um að verja þau fyrir okkur venjulega. Þetta ár er þess vegna sérstakt og verður því miður lengi í minnum haft,“ segir Halldór Gunnar.

Nokkrar umræður hafa spunnist um fyrirstöðuna í Miklavatni á Facebook-síðunni Sveitin mín – Fljótin en þar má sjá fleiri myndir af ástandinu í Fljótum. Sumir spyrja hvort ekki sé ráð að fara með vinnuvélar í ósinn á Miklavatni og hreinsa aðeins til en aðrir telja að vandamálið tengist sandrifum sem ganga langt inn í vatnið – þó vissulega geti hjálpað til að hreinsa til í ósnum. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir