Samstarfsyfirlýsing undirrituð vegna uppbyggingar hótels á Skagaströnd

Hér má sjá hugmynd að því hvernig Herring Hotel gæti litið út. MYND AF SÍÐU SKAGASTRANDAR
Hér má sjá hugmynd að því hvernig Herring Hotel gæti litið út. MYND AF SÍÐU SKAGASTRANDAR

Það hefur lengi verið í bígerð að koma á fót hótelstarfsemi á Skagaströnd og fyrir tæpu ári síðan var sagt frá því að stefnt væri að því að breyta gömlu húsnæði Síldarverksmiðju ríkisins á Skagaströnd í hótel. Nú í gær, réttu ári síðar, var samþykkt samstarfsyfirlýsing á fundi sveitarstjórnar Skagastrandar, milli sveitarfélagsins og Fasteignafélagsins Þingeyrar, um undirbúning að uppbyggingu á glæsilegu hóteli á Skagaströnd. Hótelið hefur hlotið vinnuheitið Herring Hotel.

Það er því útlit fyrir að gamla Síldarverksmiðja ríkisins, sem var til húsa á Hafnarlóð 9 á Skagaströnd, öðlist nýtt líf. Fram kemur á vef Skagastrandar að sveitarfélagið lét hanna frumdrög að útliti og útfærslu að hótelinu í lok árs 2021 en verkefnið var unnið af Esja Architecures. Húsið var upphaflega myndarlegt útlits og gera hugmyndirnar ráð fyrir því að það verði að miklu leyti færi í fyrra horf að utan. Framangreindar hugmyndir að uppbyggingu hótels hafa verið kynntar víða, m.a. á fjárfestahátíð Norðanáttar á Siglufirði árið 2022.

„Frumdrög gera ráð fyrir uppbyggingu á 4-5 stjörnu hóteli með um 60 gistirýmum, veislu-, viðburða- og ráðstefnusal og glæsilegum veitingastað með útsýni yfir hafið. Verkefnið kallar á umtalsverða fjárfestingu en endanleg kostnaðaráætlun liggur ekki fyrir á þessu stigi.

Fasteignafélagið Þingeyri hefur metnaðarfull áform um uppbyggingu Herring Hotel á Skagaströnd og mun vinna þétt með sveitarfélaginu að verkefninu á næstu mánuðum. Samkvæmt samstarfsyfirlýsingunni er gert ráð fyrir að Fasteignafélagið skili fullkláraðri útfærslu að útliti og rekstrarmódeli fyrir hótelið fyrir 1. júní 2023 sem er forsenda þess að sveitarfélagið geti ráðist í nauðsynlega skipulagsvinnu vegna verkefnisins. Deiliskipulag og aðaluppdrættir verða unnir næsta vetur með það að markmiði að framkvæmdir geti hafist sem fyrst á árinu 2024,“ segir í fréttinni.

Verkefnið mun gjörbreyta forsendum fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu í landshlutanum enda gríðarleg vöntun á gistirýmum á Norðurlandi vestra. Þess má geta að á Skagaströnd hefur einnig verið unnið að því að koma upp glæsilegum baðstað rétt við Bjarmanes.

Áhugasamir geta kynnt sér frumdrög að hótelinu hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir