Samstarf BioPol ehf, Sero ehf og Háskólans á Akureyri til kynningar á Vísindavöku Rannís
Samstarf Háskólans á Akureyri við fyrirtæki í nýsköpun var þemað á bás skólans á Vísindavöku Rannís sem haldin var föstudaginn 25.september.
„Lifandi lýsispillur“, matalím úr grásleppuhvelju, sérvirk íblöndunarefni úr sjávarfangi og bragðkjarnar úr þangi var meðal þess sem almenningur gat barið augum á bás Háskólans á Akureyri á Vísindavöku Rannís 2009. Allt eru þetta dæmi um verkefni á sviði nýsköpunar sem sprottið hafa upp í kjölfar samstarfs skólans við Sero ehf og BioPol Sjávarlíftæknisetur á Skagaströnd.
Vísindavaka er árlegur viðburður þar sem almenningi gefst kostur á að kynnast viðfangsefnum vísindamanna í hinum ýmsu vísindagreinum. Í ár heimsóttu tæplega 3000 gestir Vísindavökuna og hafa þeir aldrei verið fleiri.
Fjölmargir gestir komu við á bás Háskólans á Akureyri og spurðu vísindamenn spjörunum úr. Mesta athygli vöktu það sem kallaðar voru „lifandi lýsispillur“ en þar gafst fólki kostur á að skoða í smásjá ófrumbjarga þörunga úr sjó sem eru meðal frumframleiðanda á omega-3 fitu í hafinu. Undanfarin misseri hefur Sigurður Baldursson, starfsmaður háskólans og BioPol á Skagaströnd, unnið að ræktun og einangrun þessara lífvera. Markmið rannsóknanna er að kanna eiginleika þeirra til framleiðslu á hágæða fiskiolíum til hagnýtingar í matvæla-, lyfja- og fóðuriðnaði.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.