Samstaða með sjálfri sér og öðrum

Hvaða dagur er það sem skiptir mestu í lífi manns? Er það dagurinn sem þú fyllist bjartsýni vegna væntinga sem rætast? Er það dagurinn þar sem öll sund virðast lokuð og engin fær leið er í augsýn? Er það dagurinn þar sem þú ákveður að nú sé nóg komið og þú tekur afstöðu? Ákveður að standa með sjálfum þér, vera með sjálfum þér í liði og reyna að vekja aðra til umhugsunar?

Ég hef upplifað alla þessa daga og eflaust þú líka. Einn daginn ákvað ég að nú væri nóg komið. Ég ákvað að það væri reginheimska og skammsýni að láta fólk úti í bæ ráða alfarið minni líðan frá degi til dags. Fólki sem væri slétt sama hvorum megin hryggjar ég lægi og hvernig mér liði, þar sem ég væri bara tala á blaði og allavega enn þá skilvís tala. En hvað gat ég gert?

Ég ákvað að standa upp og láta í mér heyra. Aldrei að taka nei sem svari. Aldrei að láta vísa mér á milli aðila sem hvorki geta né vilja greiða götu fólks eins og mín. Skrá öll mín samskipti við stofnanir og taka sjálf stjórnina í mínar hendur. Ekki bara bíða eins og lamb á leið til slátrunar. Margar þessara stofnana auglýsa upp þjónustu sína með slagorðum eins og: „Ekki gera ekki neitt“ en það sem ég les út úr þessum orðum er: Gerðu bara það sem við viljum að þú gerir og láttu okkur ráða, þá fer allt vel. Þú hefur hvort eð er ekkert vit á þessu.

Ég hef kynnst uppsögnum og atvinnuleysi undanfarinna ára. Þekki svefnlausar nætur, áhyggjur yfir komandi degi, endalausar starfsumsóknir sem engin svarar. Ósýnileikann og vanmetakenndina sem verða dyggir fylginautar. Allt í einu er maður orðin einskis virði í þjóðfélaginu.  Dagurinn í dag er hins vegar dagurinn sem ég held áfram að standa með sjálfri mér, tel mér ekkert óviðkomandi  sem gæti lagað stöðu mína og þeirra sem enn bíða úrlausna. Úrlausna í atvinnumálum, húsnæðismálum og fjármálum.  Breytingum til umbóta í málefnum fatlaðra, aldraðra og þeirra sem eru verst settir í þjóðfélaginu. Það ættu að vera sjálfsögð mannréttindi að geta brauðfætt sig og sína, hafa þak yfir höfuðið og næga atvinnu.

Daglega heyrum við fréttir af misbeitingu valds og fjármuna. Daglega heyrum við fréttir af fólki sem er að missa vinnuna, heimili sín og fyrirtæki. Daglega heyrum við fréttir þar sem misvitrir stjórnmálamenn veita skattpeningum okkar í einhver gæluverkefni. Daglega heyrum við þá hrósa sér af verkum sínum, tala niður til þeirra sem dansa ekki eftir þeirra pípu og bjóða okkur samt sem áður að kjósa þá aftur. Ég ætla að standa með sjálfri mér og segi nei takk!

Þess vegna ætla ég taka þátt í að byggja upp Samstöðu ásamt öðrum sem vilja sjá umbætur á öllum sviðum þjóðfélagsins. Er ekki tími til komin að þú standir með sjálfum þér og sláist í hópinn?

Pálmey Gísladóttir

Höfundur situr í stjórn aðildarfélags SAMSTÖÐU í Reykjavík

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir