Samræmt húsnæðiskerfi

Húsnæðisbólur hafa myndast á Íslandi og víða annars staðar á undanförnum árum.  Íbúðaverð hækkar í takt við aukna eftirspurn og aukið aðgengi að húsnæðislánum með lágum vöxtum.  Á endanum er búið að skrúfa svo upp verðið að það er ódýrar að byggja nýtt húsnæði en að kaupa notað.  Vandamálið er svo að þegar verðbólgan eykst þá hækka lánin, sem eru tryggð með neysluvísitölu.  Þetta er í sjálfum sér allt í lagi ef íbúðaverð myndi hækka í samræmi við verðbólguna. 

Vandamálið er bara að ef laun þeirra sem eiga að borga af þessum lánum hækka ekki að sama skapi, þá á endanum lendir fólk í greiðsluerfiðleikum.  Enn verra er að ef það kemur síðan samdráttur á íbúðamarkaði, þá lækkar verð húsnæðis, en lánin lækka ekki, heldur halda áfram að hækka. Á endanum hefur verðmæti eigna hækkað minna en uppreiknuð lán.  Fólk nær því ekki að halda í við, annarsvegar að auka laun sín og hinsvegar að greiða hraðar niður en sem nemur verðbótaaukningu lánanna.

Mig undrar reyndar að það hafi ekki fyrir löngu verið komið upp húsnæðiskerfi á Íslandi þar sem allir geti keypt sitt eigið húsnæði.  En það eru nokkrir þættir sem þyrfti að laga til að slíkt gæti gengið upp.  Það er vel hægt að koma slíku kerfi á laggirnar.  Það er mjög einkennilegt að það skuli vera 3 mismunandi opinber verðmæti á fasteignum.  Þ.e.a.s. fasteignamat, brunabótamat og markaðsverð.  Hvað af þessu er hið raunverulega verðmæti?  Er það ekki það sem kostar að byggja húsnæðið?  Með einu samræmdu mati (sem við getum kallað húsnæðismat) væri hægt að komast hjá húsnæðisbólum, því húsnæðisverð myndi alltaf leita í það verð sem er næst kostnaðarverði, því með lögbindingu lánshlutfalls í hámark 100% af þessu samræmda mati þá verða bankar að taka veð í einhverju öðru en húnsæðinu.  Það er líka áhættusækni að kaupa húsnæði á helmingi hærra verði en sem nemur brunabótamati.  Ef húsið brennur, þá fæst aldrei meira en helmingurinn borgaður af húsinu.  Eigandinn situr því uppi með áhættu af veðsetningu sem er hærri en nemur raunverulegu verðmæti hússins, ef það er byggt upp á nýtt.

En auðvitað verður alltaf til markaðsverð og þeir sem eiga peninga munu kaupa húsnæði á hærra verði.  En það mun ekki hafa áhrif á lánamarkaðinn og veðsetningu.  Það mun þá alltaf verða til innistæða fyrir húsnæðisbólum, nema að fjármálastofnanir gerist óvarlegar í útlánum og láni án veða.  Með slíkum lögum myndi fólk aldrei skulda meira en 100% af verðmæti eignar og ekki væri heldur hægt að gera fjárnám umfram 100%.

Af hverju er t.d. hægt að fá lán til 30 ára til íbúðakaupa og svo eftir 30 ár er aftur hægt að fá lán í sömu fasteign til næstu 30 ára, en það er ekki hægt að fá lán til 60 ára í byrjun?

Nýtt húsnæðiskerfi:

Með því að afnema verðtryggingu lána og lengja greiðslutíma lána í samræmi við greiðslugetu fólks, allt upp í 75 ár, og bjóða lága vexti eins og hinum Norðurlöndunum, þá ætti flestum að gefast tækifæri að kaupa sitt eigið húsnæði. Hægri grænir (www.xg.is) hafa lagt fram ítarlega stefnuskrá til að leysa vandamál heimilanna og taka upp réttlátara húsnæðiskerfi þar sem enginn er skilinn útundan.  Það er borgaraleg skilda okkar Íslendinga, sem fámenn þjóð að sjá til þess að allir hafi þak yfir höfuðið.  Það er eitt af grunn mannréttindum í fámennu landi þar sem allra veðra er von.  Hvort sem það eru aldraðir, öryrkjar eða almenningur, þá eigum við að tryggja það að allir hafi þak yfir höfuðið.  Afnemum sérhagsmunagæslu og tryggjum almenningi lágmarks kjör og mannréttindi í þessu landi.

Sigurjón Haraldsson, Viðskiptafræðingur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir