Samgönguáætlun 2011-2022

Ríkisstjórnin lagði fram samgönguáætlun fyrir árin 2011 til 2022 í byrjun ársins og er hún nú í vinnslu hjá samgöngunefnd Alþingis. Sú staðreynd að gert er ráð fyrir litlum sem engum framkvæmdum á stórum landsvæðum auk lítils fjármagns til viðhalds á næstu 10-15 árum eru alvarleg skilaboð bæði fyrir íbúa einstakra landshluta, sveitarfélög, verktakafyrirtæki víðsvegar um landið, aðila í ferðaþjónustu o.fl.

Hærri skattar á eldsneyti, minni framkvæmdir og viðhald.

Þær tekjur sem ríkissjóður hefur  af sölu eldsneytis og annarri skattlagningu á umferð og bifreiðar eru á engan hátt að skila sér til samgönguframkvæmda. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2012 er gert ráð fyrir því að tekjur af ökutækjum nemi 54 milljörðum. Þar af er ráðgert að tekjur ríkissjóðs af eldsneyti nemi 21 milljarði en skatttekjur vegna vörugjalds á eldsneyti hafa hækkað um 163% frá árinu 2008. Í heildina hafa skattar á eldsneyti hækkað um 71,81%.

Á sama tíma er einungis 15,7 milljörðum varið til vegagerðar. Framlögin hafa dregist mjög saman og ekki er gert ráð fyrir aukningu umfram hagvöxt á næstu árum. Þeir sem til þekkja segja að einungis hafi verið varið 40% af því sem þarf til viðhalds á síðustu 4 árum. Vegakerfið sé að eldast og ljóst að við blasi milljarðatjón ef ekki verður aukning umfram það sem gert er ráð fyrir í samgönguáætlun.

Landsbyggðin svelt – litlar framkvæmdir næstu 10-15 árin

Mörg landsvæði hafa glímt við mikla fólksfækkun á undanförnum árum. Bættar samgöngur eru grunnurinn að því að efla byggð um allt land og margir horfðu til samgönguáætlunar í þeirri von að nú færi daginn að lengja. Áætlunin sýnir því miður hið gagnstæða og dregur ekki upp bjarta mynd af næsta áratug. Nái áætlunin fram að ganga munu stór landsvæði búa við óbreyttar samgöngur næstu 10-15 árin en víða er ekki gert ráð fyrir neinum framkvæmdum til ársins 2022.

Vegna lítilla framkvæmda má fastlega gera ráð fyrir að ekki dragi úr uppsögnum og fjárhagsvandræðum hjá verktakafyrirtækjum enda lítið að gerast í öðrum mannaflsfrekum framkvæmdum. Það er samfélagslega dýrt að tapa einstaklingum úr landi en þeir sem missa vinnuna eiga helst von um vinnu í Noregi. Samhliða því hefur sjaldan verið flutt jafn mikið út af vinnuvélum en þær eru í dag fluttar út á gjafverði og dýrt verður að endurnýja þessi tæki að nokkrum árum liðnum. Þessar staðreyndir hefur ríkisstjórnin ekki tekið inn í myndina þegar ákvarðanir um fjárveitingar til samgöngumála voru teknar.

Stefna ríkisstjórnar birtist í þeim málum sem hún leggur fram. Við fyrstu umræðu málsins kom fram vilji hjá nefndarmönnum innan ríkisstjórnarliðsins til að gera breytingar á samgönguáætlun áður en hún verður samþykkt. Ég bind vonir við að þau orð standi vegna þess að algjört framkvæmdaleysi á stórum landsvæðum til ársins 2022 væri reiðarslag og myndi til lengri tíma verða mjög kostnaðarsamt fyrir ríkissjóð.

Ásmundur Einar Daðason, Alþingismaður Framsóknarflokksins og fulltrúi í samgöngunefnd Alþingis

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir