Saltfiskur m/hvítlauk, chili, ólifum og sætri kartöflumús í aðalrétt
Að þessu sinni kemur matseðill frá Bryndísi og Jónasi á Blönduósi en Bryndís rak Hótel Blönduós sumarið 2009 þegar uppskriftin birtist fyrst í blaðinu Feyki. Þar segir að aldrei væri að vita nema þessi matseðill verði þar á boðstónum.
Forréttur
Risotto.
- 2 msk ólífuolía
- 20 smjör (eða sleppa smjöri og setja meiri olíu)
- 1 skarlottulaukur (má líka vera venjulegur, þá bara hálfur, lítill), saxaður
- 350 gr risottohrísgrjón
- 1,2 ltr kjúklingasoð (teningar +vatn)
- 100 ml hvítvín
- salt og pipar
- 600 gr humar soðinn í 2 mín. og tekinn úr skelinni
- 30 st cherry tómatar helmingaðir
- hvítlaukur, steinselja og ólífuolía maukað saman þangað til það verður vel grænt
- salt og pipar
1. Látið suðuna koma upp í soðinu og haldið því við suðupunkt.
2. Hitið olíuna í meðalstórum potti við meðal-háan hita, bætið lauknum útí og léttsteikið í 2-3 mínútur, bætið þá hrísgrjónunum út í og látið hitna vel í 2-3 mínútur til viðbótar, hellið þá hvítvíninu saman við (víninu má sleppa) og látið sjóða niður í 2-3 mínútur. Hellið þá einni sleif af soði yfir og látið grjónin sjúga í sig vökvann, þegar vökvinn er næstum þrotinn er annarri ausu af soði ausið yfir og svo þannig koll af kolli þar til grjónin eru orðin mjúk og rjómakennd. Þá byrjið þið að smakka þau til og sjá hvað þarf mikið vatn til viðbótar. Þegar grjónin eru orðin "al dente" er smá smjörklípu bætt út í og látin bráðna og hrært saman.
3. Panna hituð og smjör og ólífuolía sett á, tómötum og kóngakrabba bætt saman við ásamt slurk af hvítlauksolíunni og muldum svörtum pipar. þetta er látið krauma í um 1 - 2 mín. og tekið af.
4. Risottoið sett í skál og humarinn yfir, skreytt með grænu olíunni og ferskri steinselju.
Aðalréttur
Saltfiskur m/hvítlauk, chili, ólifum og sætri kartöflumús
- 800 gr saltfiskur
- 8 st. hvítlauksrif
- 1 st. chilipipar fræhreinsaður og skorinn smátt
- 1 dl. svartar ólífur
- 1.dl. hvítvín
- 1.dl. matarolía
- Pipar eftir smekk
- Eitt lítið búnt steinselja fersk
- Nokkrar hundasúrur úr garðinum.
- Salat eftir smekk.
- Sætar kartöflur ca. 250gr.
- Kartöflur venjulegar ca. 250gr
- Ein dós feta ostur í kryddolíu
- Salt
Aðferð:
Fiskur:
Saxið steinseljuna út í olíuna, leggið síðan saltfiskinn í olíuna og látið liggja í klukkustund. Hvítlaukurinn, ólífurnar og chilipiparinn saxað og steikt á pönnu. Fiskurinn steiktur aðeins á hvorri hlið og kryddaður með pipar, síðan skal skvetta hvítvíninu yfir. Fiskurinn er settur í eldfast mót og chilipiparinn, hvítlaukurinn og ólifurnar settar yfir fiskinn í mótinu, þetta síðan haft í ofninum í nokkrar mínútur.
Sæt kartöflumús:
Soðnar sætar kartöflur og venjulegar kartöflur. Kartöflurnar soðnar vel og hrærðar vel saman, hellið síðan feta ostinum saman við. Saltið músina svolítið og setjið í eldfast mót og bakið í 10.-15mín. við 200ºC.
Berið fiskinn fram með sætri kartöflumús og fersku salati. Sniðugt að setja fiskinn ofan á sætu músina og salatið við hliðina og skreyta síðan með nokkrum hundasúrum. Ef það er engin hundasúra í garðinum þínum væri hægt að skoða í næsta garð eða nota ferska steinselju.
Eftirréttur
- Rabarbara sorbet.
- 1/2 ltr vatn.
- 200 gr sykur
Brætt saman og látið sjóða í 1 mín. 1 kg rabarbari smátt skorinn og bætt út í, látið maukast og sett í matvinnsluvél. Sigtað og sett í skál og inn í frysti, þegar þetta er orðið kalt þá bætir maður við 2 eggjahvítum og hrærir þeim vel saman við. Sett í frysti yfir nótt og daginn eftir er þetta tekið úr og sett í matvinnsluvél til að mýkja klakann upp.
Berjablanda.
Einfaldlega takið þau ber sem að ykkur þykir best og blandið saman í skál til að gefa með.
Verði ykkur að góðu
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.