Rúnar Már kominn til Kasakstan
Fjölmiðlar greina frá því að miðjumaðurinn skagfirski, Rúnar Már Sigurjónsson, sé búinn að skrifa undir samning við FC Astana sem ku vera sterkasta liðið í Kasakstan. Félagið staðfesti félagaskiptin í dag og ætti landsliðsmaðurinn að geta fagnað félagaskiptunum um leið og hann heldur upp á 29 ára afmælið sitt á morgun.
Á Fórbolti.net segir að Astana hafi unnið efstu deild þar í landi í fyrsta sinn 2014 og hefur unnið á hverju ári síðan. Fimmti deildartitillinn í röð kom í fyrra og þá vann liðið einnig bikarinn 2010, 2012 og 2016. Rúnar Már kemur til félagsins á frjálsri sölu eftir að hafa leikið fyrir Grasshoppers og St. Gallen í Sviss undanfarin þrjú ár. Meistaraflokksferill Rúnars hófst með liði Tindastóls þegar hann var fjórtán eða fimmtán ára gamall.
Tímabilið er í fullum gangi í Kasakstan og er Astana á toppnum með 35 stig eftir 16 umferðir. Rúnar Már er fenginn til að hjálpa félaginu að landa sjötta titlinum í röð. Reynsla Rúnars ætti að koma að góðum notum þar sem hann á 22 A-landsleiki að baki og hefur spilað í efstu deild í þremur löndum.
Rúnar Már tók þátt í landsliðsverkefnum Íslands á dögunum, spilaði á vinstri kanti í 1-0 sigri á Albönum en var ónotaður varamaður gegn Tyrkjum fjórum dögum síðar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.