Rúnar Már ekki haldinn Val-kvíða
Króksarinn Rúnar Már Sigurjónsson hefur skrifað undir þriggja ára samning við Valsmenn en hann hefur síðustu ár leikið með HK. Rúnar, sem er 19 ára miðjumaður, spilaði sína fyrstu leiki með meistaraflokki Tindastóls en gekk síðan til liðs við HK þar sem hann spilaði gríðarlega vel og fékk sína fyrstu reynslu í efstu deild með HK í fyrra.
Á Fótbolti.net segir Rúnar Már: ,,Þetta er stórt skref á mínum ferli, ég byrjaði auðvitað ungur að spila á Króknum og tók þaðan mikilvægt skref að ganga til liðs við HK og fékk mikilvæga reynslu þar og núna kom tækifæri að taka ennþá stærra skref og ganga til liðs við Val og taka þátt í þeirri uppbyggingu sem er að fara hér í gang."
Rúnar, sem er sonur Sigurjóns Alexanderssonar og Sigurlaugar Konráðsdóttur, er ákveðinn í að standa fyrir sínu hjá Val. ,,Ég tel líklegt að ég muni spila stórt hlutverk hjá Val aðalega vegna þess að ég ætla mér það og ég er ekki kominn hingað til að sitja á bekknum, ég hefði aldrei skipt um lið ef ég ætlaði að koma til að sitja á bekknum. Þá hefði ég miklu frekar viljað vera áfram hjá HK en ég ætla mér að taka þátt í þessari uppbyggingu og vera mikilvægur hlekkur í góðum árangri Valsliðsins," sagði Rúnar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.