Rósirnar frá Starrastöðum bræða blómahjartað

María í blómahafi.
María í blómahafi.

Það er fátt sem hefur yljað manni eins mikið á þessum skringilegu tímum eins og rósirnar frá Starrastöðum. Þær eru hreint út sagt algjört æði og það sem toppar þetta allt saman er hversu vel þær standa eftir að maður kaupir sér einn til tvo vendi. Sú sem á heiðurinn að því að koma þessum fallegu rósum á markað er hún María Ingiríður Reykdal.

María hóf rekstur garðyrkjustöðvar árið 1985 á Starrastöðum í Lýtingsstaðahreppi, fyrst með pottablóm og afskorin blóm en frá árinu 2000 hefur hún eingöngu ræktað afskornar rósir. Dætur hennar, Margrét og Stefanía Guðrún Eyjólfsdætur, hafa svo verið að taka smám saman við rekstrinum eftir að farið var að rækta rósirnar allt árið um kring með vaxtarlýsingu. „Í dag ræktum við gæðarósir í ellefu litum og hafa þær fram að þessu nánast eingöngu fengist í blómabúðum á Akureyri, Sauðárkróki, á Blönduósi ásamt Olís í Varmahlíð og Kaupfélaginu á Hofsósi. Þá hefur líka einhver heimasala verið en það hentar ekki öllum að keyra langar leiðir til að kaupa sér rósir,“ segir María. Þegar þeim hinsvegar bauðst að taka þátt í verkefninu Smáframleiðendur á ferðinni voru þær fljótar að slá til því þarna gafst þeim tækifæri til að selja rósirnar beint og auðveldara fyrir fólk að nálgast þær þar sem bíllinn er á ferðinni um allt Norðurland vestra. „Þetta hefur gefist mjög vel og salan verið góð. Enda eru þetta kraftmiklar og hugmyndaríkar systur, Þórhildur og Auðbjörg sem standa að þessu. Þetta framtak er alveg frábært og þarna er kominn grundvöllur fyrir hinn almenna neytanda að nálgast vörur beint frá framleiðendum á tiltölulega auðveldan hátt,“ segir María að lokum.

 

Hægt er að hafa samband við þær mæðgur á Facebooksíðunni þeirra; Gróðurhúsið Starrastöðum og mæli ég með því að ná sér í vönd annaðhvort til að gleðja sig eða aðra.  

Þeir sem lásu Sjónhornið á miðvikudaginn uðru kannski varir við að bíll Smáframleiðenda verður á ferðinni frá 23. mars til og með 28. mars.

Hér fyrir neðan má sjá hvar og hvenær hann verður á ferðinni:) 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir