Röng eign boðin upp vegna vanskila á leyfisgjaldi hunds
Geirfinnur Skúlason lenti í þeirri óskemmtilegu reynslu á dögunum að inn til hans ruddust fulltrúar sýslumanns og hugðust bjóða upp húseign hans.
-Þetta var alveg svakalegt, sagði Geirfinnur í samtali við Dreifarann. –Ég vissi ekki fyrr en það var bankað upp á hjá okkur og inn komu menn sem kynntu sig sem fulltrúa Sýslumanns og þeir ættu að bjóða húsið okkar upp vegna vanskila. Þeir komu með hamarinn og allt. Ég kom alveg af fjöllum og hafði strax samband við sparisjóðinn sem sagði mér eins og ég vissi, að ég væri ekki í neinum vanskilum. Þá kom í ljós að til uppboðsins var boðað vegna ógreiddra leyfisgjalda af hundi og við eigum ekki einu sinni hund, sagði Geirfinnur og var eðlilega mikið niðri fyrir.
Ég reyndi að útskýra þetta fyrir þeim á staðnum en það gekk nú illa en svo fór að lokum að ég fékk þá til að skoða betur gögnin sem þeir voru með. Kom þá í ljós að hundurinn Dordingull sem allt snérist um, var búsettur fyrir austan, en í húsi sem hafði nákvæmlega sama götuheiti og númer og húsið okkar. Þarna var því um mikinn misskilning að ræða, sagði Geirfinnur.
Fulltrúar sýslumanns báðust þráfaldlegrar afsökunar á þessu atviki og buðu fjölskyldunni upp á ís í skaðabætur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.