Rögnvaldur Valbergsson handhafi Samfélagsverðlauna Skagafjarðar 2023
Sæluvika Skagfirðinga var formlega sett í Safnahúsinu á Sauðárkróki fyrr í dag að viðstöddu fjölmenni. Sólborg S. Borgarsdóttir, forseti sveitarstjórnar, setti hátíðina og í kjölfarið veitti Sigurður Bjarni Rafnsson, varaformaður atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar Rögnvaldi Valbergssyni Samfélagsverðlaun sveitarfélagsins. Þá var tilkynnt um úrslit vísnakeppninnar og að endingu opnaði Sólborg Una Pálsdóttir, héraðsskjalavörður, myndlistarsýningu Maríu Carmelu Torrini sem einnig var viðstödd og fékk blómvönd að launum.
Í ávarpi Sigurðar Bjarna kom fram að hefð hafi skapast fyrir því að afhenda Samfélagsverðlaun Skagafjarðar á setningu Sæluviku en samfélagsverðlaunin hafa verið veitt árlega þeim einstaklingi, fyrirtæki, stofnun eða félagasamtökum í sveitarfélaginu Skagafirði sem þykja standa sig afburða vel í að efla skagfirskt samfélag allt frá því þau voru veitt í fyrsta sinn á setningu Sæluviku Skagfirðinga árið 2016. Er þetta því í 8. sinn sem Samfélagsverðlaunin eru veitt.
Hann sagi atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd sveitarfélagsins einróma hafa samþykkt að Rögnvaldur Valbergsson væri verðugur veitingu Samfélagsverðlauna Skagafjarðar 2023.
„Rögnvaldur er flestum Skagfirðingum góðkunnugur. Hann hefur staðið vaktina í samfélagi okkar í áratugi og aðstoðað leika og lærða. Hans afrek eru mörg og tengjast mikið tónlist. Hann er óþreytandi að leggja góðum hlutum lið og er hafsjór af fróðleik í þeim efnum. Rögnvaldur hefur spilað undir hjá fjölmörgum kórum og alls kyns hópum auk þess að vera organisti Sauðárkrókskirkju til langs tíma. Rögnvaldur er gjöfull og greiðagóður á tíma sinn og hæfileika til samfélagsins. Það er því vel við hæfi að Rögnvaldur Valbergsson hljóti Samfélagsverðlaun Skagafjarðar og að þakka honum opinberlega fyrir öll hans óeigingjörnu störf í gegn um tíðina.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.