Rjómalagaður kjúklingaréttur, eplapæ og hollt nammi
Matgæðingar í 43. tbl Feykis árið 2018 voru þau Linda Björk Ævarsdóttir og Kristján Steinar Kristjánsson á Steinnýjarstöðum í Skagabyggð. „Við eigum fjögur börn á aldrinum 16-27 ára. Erum með hefðbundinn búskap, aðalega mjólkurkýr, en eigum líka nokkrar kindur og hesta. Einnig er ég lærður ZUMBA danskennari,“ sagði Linda Björk en þau hjón gáfu okkur þrjár spennandi uppskriftir. „Kjúklingarétturinn er frá móður minni, Rögnu, og mikið vinsæll á okkar heimili, á eftir lambalærinu.“
AÐALRÉTTUR
Rjómalagaður kjúklingaréttur
4 kjúklingabringur (skornar í bita)
3 dl tómatsósa
2 hvítlauksrif ( pressuð í mauk)
1½ tsk. karrí
1 tsk. salt
1 peli rjómi
Aðferð:
Tómatsósu, karrí, hvítlauk og salti blandað saman í skál. Þar á eftir er kjúklingurinn brytjaður og settur út í. Sett í eldfast mót og eldað í 30 mínútur við 180°C. Þá er rjómanum bætt við og látið malla í 30 mínútur í viðbót.
Borið fram með kúskús og hvítlauksbrauði.
EFTIRRÉTTUR
Heitt eplapæ með rjóma
6 epli
4 dl hveiti
2 dl púðursykur
150 g smjörlíki (lint)
1 tsk. kanill
150 g súkkulaðirúsínur
Aðferð:
Epli skorin í bita og raðað í eldfast mót. Súkkulaðirúsínunum blandað við eplin. Öllum hinum hráefnunum blandað saman í skál og hnoðað saman, mulið yfir eplin og bakað við 180°C í u.þ.b. 20-25 mínútur.
Borið fram með þeyttum rjóma.
AUKABITI
Hollt nammi (sem gott er að eiga í frystikistunni)
1 bolli hnetusmjör
⅔ bolli hunang
½ bolli kókosolía
2 bollar haframjöl
1¼ bolli 70% súkkulaði
¾ bolli þurrkuð trönuber
Aðferð:
Bræðið saman hnetusmjör, hunang og kókosolíu við vægan hita. Takið pottinn af hellunni og bætið við haframjöli, súkkulaði og trönuberjum. Hrærið saman þar til súkkulaðið er bráðið.
Blandan sett í stórt eldfast mót með bökunarpappír undir, höfð hæfilega þykk.
Sett í ískáp og kælt þar til blandan hefur stífnað, í um klukkustund. Skerið í hæfilega munnbita, raðið í box og gott að eiga í frysti og næla sér í einn og einn bita þegar að maður vill „tríta" sig aðeins.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.