Ritstjóraskipti hjá Feyki

Óli og Palli nokkuð kátir í byrjun sumars. MYND: KBS
Óli og Palli nokkuð kátir í byrjun sumars. MYND: KBS

Nú um mánaðamótin urðu ritstjóraskipti á Feyki en þá lét Páll Friðriksson af störfum en Óli Arnar Brynjarsson tók við keflinu. Palli hafði starfað við Feyki í um 13 ár og lengstum stýrt blaðinu á þeim tíma, lengur en nokkur fyrri ritstjóra blaðsins ef undan er skilinn Þórhallur Ásmundsson.

Í kjölfar þess að Nýprent tók við útgáfu Feykis í lok ársins 2006 og Guðný Jóhannesdóttir var ráðin ritstjóri var blaðið stækkað úr átta síðum í tólf að jafnaði og fljótlega var blaðamanni bætt í hópinn og það var einmitt Palli. Hann tók síðan við sem ritstjóri haustið 2011. Hann lét af störfum í lok árs 2013 en tók við blaðinu á ný 1. september 2016 og hefur stýrt Feyki með glæsibrag síðan.

„Ég tel að héraðsfréttamiðlar séu hverju svæði mikilvægir og þar er Feykir engin undantekning. Ég vil hvetja alla til að nýta sér Feyki, bæði til að koma fréttum og tilkynningum á framfæri og þau sem ekki eru áskrifendur að hafa samband og gerast áskrifandi, á því byggist blaðið og þar með Feykir.is,“ svarar Palli þegar hann er spurður hvaða máli héraðsfréttamiðlar eins og Feykir skipti í samfélaginu.

Óli Arnar hefur unnið við Feyki í 20 ár, lengstum sem uppsetjari blaðsins en hefur einnig séð um fasta þætti í blaðinu um árabil, svo sem íþróttaskrif, Rabb, Tón-lyst, Dag í lífi brottfluttra og ýmis fréttaskrif og viðtöl. Áður en hann var ráðinn til starfa á Nýprenti hélt hann m.a. utan um vefinn Skagafjörður.com. Hann reiknar með að Feykir verði með svipuðu sniði og verið hefur en einhverjar smávægilegar áherslubreytingar verði þó kannski með tíð og tíma, þá sérstaklega í ljósi þess að nýr blaðamaður hefur störf.

Samstarfsfólk Palla á Nýprenti og Feyki sendir honum góðar kveðjur og þakkar frábært samstarf og góðar stundir við gerð um 500 Feykisblaða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir