Reynt að semja um stofnfjárlánin
Á Húna.is er sagt frá því að íbúar í Húnaþingi vestra og Bæjarhreppi sem keyptu stofnfé í Sparisjóði Húnaþings og Stranda fyrir sameiningu við Sparisjóðinn í Keflavík hafi fengið frest fram í maí til að greiða lán sem tekin voru í Landsbankanum og átti að greiða eða endurfjármagna í þessum mánuði. Verða lánin þá á gjalddaga á svipuðum tíma og lán Sparisjóðsins í Keflavík sem fjármagnaði hinn hluta stofnfjárkaupanna.
Talið er að um fimmta hvert heimili í Húnaþingi vestra og Bæjarhreppi standi frammi fyrir alvarlegum fjárhagsvanda eða persónulegu gjaldþroti vegna kaupa á stofnfjárbréfum þar sem skuldirnar hafa hækkað en bréfin orðið lítils virði. Algengt er að einstaklingar skuldi frá fimmtán og upp í 40 milljónir kr. og dæmi um að fjölskyldur skuldi á annað hundrað milljónir.
Stofnuð hafa verið Samtök stofnfjáreigenda í fyrrum Sparisjóði Húnaþings og Stranda. Reimar Marteinsson formaður segir að reynt verði að ná samningum við Sparisjóðinn í Keflavík um að koma til móts við íbúana þannig að fólk verði ekki gert eignalaust eða gjaldþrota.
/Morgunblaðið
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.