Rassskelling eftir góða byrjun - Tindastóll úr leik í Powerade-bikarnum

Strákarnir létu Vesturbæjargrýluna hræða úr sér líftóruna og því fór sem fór.

Tindastóll gerði enga frægðarför í DHL-höll þeirra KR-inga í gærkvöldi í 8-liða úrslitum Powerade-bikarsins, er liðið lá með 49 stiga mun 106-57. Tindastólsliðið byrjaði leikinn af krafti og lék vel bæði í sókn og vörn og eftir 3 mínútur var staðan 3-12 fyrir Tindastól. KR-ingar söxuðu jafnt og þétt á forskotið og náðu að komast einu stigi yfir eftir fyrsta leikhlutann 21-20.

Jafnræði var með liðunum framan af öðrum leikhluta og þegar hann var hálfnaður var staðan 30-29 fyrir KR. Þeir luku hins vegar leikhlutanum af miklum krafti og hreinlega rúlluðu yfir Tindastól og staðan í hálfleik 47-32.

Áfram héldu þeir í seinni hálfleik og við lok þriðja leikhluta var staðan orðin 72-42 og fátt um varnir hjá Tindastól. Leiknum lauk síðan með sigri heimamanna 106-57.

Karl Jónsson þjálfari var eðlilega mjög svekktur með úrslit leiksins en sagði að fyrsti leikhlutinn hafi verið góður af hálfu liðsins en eftir að KR hafi jafnað leikinn hefði verið eins og menn misstu trúna á sjálfum sér og leikmenn hættu að keyra á KR-ingana eins og upp var lagt með. "Einnig vantaði okkur stóran skrokk til að eiga við þeirra hávöxnu og sterku miðherja og þar mun Ricky Henderson verða okkur sannarlega betri en enginn", sagði Karl að lokum og bætti við að um marga lærdómspunkta hefði verið að ræða í þessum leik, sem nánar verði skoðaðir á næstu æfingum.

Friðrik Hreinsson var stigahæstur Tindastólsmanna með 12 stig, Svavar og Axel skoruðu 9, Helgi Rafn og Helgi Freyr 8, Halldór 5 og þeir Hreinn, Pálmi Geir og Einar Bjarni 2 hver.

Með tapinu lauk þátttöku Tindastóls í Powerade-bikarnum þetta árið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir