Ragnhildur Ásta í Norðurhaga er yngsti bóndi landsins
„Hér höfum við sögulegt handaband. Kristófer Orri, bóndi á Syðsta Mó - fyrrum yngsti bóndi landsins og Ragnhildur Ásta, nýorðinn bóndi í Norðurhaga - nú orðin yngsti bóndi landsins,“ segir í myndatexta Kristínar Unu, systur Ragnhildar, á Facebook-síðu hennar.
Tilefnið er að Ragnhildur Ásta Ragnarsdóttir og Dagur Jónasson tóku við búi af foreldrum Ragnhildar, þeim Ragnari og Lóu nú í byrjun árs og segir í frétt á heimasíðu Húnabyggðar að þar með hafi Ragnhildur orðið yngsti bóndi landsins en hún og Dagur eru bæði 19. ára. Jörðin ber heitið Norðurhagi og er við Hópið í fyrrum Sveinsstaðahreppi.
Dagur Jónasson og Ragnhildur Ásta Ragnarsdóttir. Mynd aðsend.
Ragnhildur segir það leggjast vel í sig að gerast bóndi en það sem réði úrslitum er að hún er fædd og uppalin í Norðurhaga og segir hún að það hafi alltaf verið á bak við eyrað að kaupa. „Mikil veikindi hafa verið upp á síðkastið og því kom upp kjörið tækifæri til að kaupa,“ útskýrir hún þegar Feykir spurði fregna. Hún hefur orð pabba síns í huga sem sagði að enginn ætti að reyna sauðfjárbúskap nema að hafa óbilandi áhuga. „Ég held líka að það segi smá um það hvernig ég er í kringum búskapinn,“ segir Ragnhildur en bústofninn samanstendur af rúmlega 500 kindum, u.þ.b. 60 hrossum, tveimur hundum og ketti.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.