Ragnheiður Jóna nýr sveitarstjóri Þingeyjarsveitar
Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar hefur samið við Ragnheiði Jónu Ingimarsdóttur um að taka að sér starf sveitarstjóra Þingeyjarsveitar út kjörtímabilið en hún starfaði sem sveitarstjóri Húnaþings vestra frá árinu 2019-2022.
Á heimasíðu sveitarfélagsins kemur fram að Ragnheiður Jóna hafi starfað í 10 ár hjá Eyþingi, sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, sem menningarfulltrúi og verkefnastjóri uppbyggingarsjóðs og áður en hún fór í Húnaþing vestra starfaði hún sem framkvæmdastjóri afmælisnefndar aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands.
Ragnheiður Jóna segist í frétt Þingeyjarsveitar hlakka til að takast á við krefjandi verkefni í nýju sveitarfélagi. „Kynnast íbúum og vinna með þeim að uppbyggingu nýs sveitarfélags sem hefur fjölmörg tækifæri til vaxtar.“
Ráðning Ragnheiðar Jónu verður staðfest á fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar 23. febrúar nk. og hefur hún störf 1. mars.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.