Pungar og pelastikk - raunir trillukarla í Miðgarði í kvöld
Áhugamannafélagið Frásaga sýnir í kvöld, föstudagskvöld, hugverkið Pungar og pelastikk – raunir trillukarla, þar sem leiknum atriðum og þekktum dægurlögum er blandað saman í samfellda dagskrá. Það eru tvær galvaskar konur á Hofsósi sem eru höfundar handritsins og leikstýra því en til liðs við sig hafa þær fengið þá Einar Þorvaldsson og Stefán Gíslason ásamt hljómsveit.
Feykir tók hús á þeim stöllum í Höfðaborg á laugardagsmorguninn, stuttu áður en æfing hófst hjá þeim, til að forvitnast örlítið um verkefnið. Fyrst af öllu langar blaðamann að vita hvort þessi leiklistaráhugi hafi blundað með þeim vinkonunum lengi.
„Ég held að hann sé frá því við vorum sjö ára og lékum þrjá litla hermenn sem heim úr stríði komu,“ segir Berglind hlæjandi. „Ég man að Sigfríður kennari var með leikprufur. Það voru ekkert allir jafnir í þá daga. En ég hef alltaf haft mjög gaman af að leika, maður er náttúrulega með svo mikla athyglissýki.“ Jóhanna segist halda að áhuginn hjá henni hafi kviknað þegar hún lék í Blúndum og blásýru með Leikfélagi Hofsóss fyrir þremur árum. „Mér finnst nú reyndar ekkert leiðinlegt að trana mér fram, ég segi það nú ekki,“ bætir hún við.
„Svo var pabbi alltaf með leikfélaginu þegar ég var krakki,“ segir Berglind „ég er farin að halda að systkini mín hafi ekki verið læs því að ég las alltaf með honum yfir handritin og hlýddi honum yfir textann.“
En hvaða fyrirbæri er Frásaga?
„Frásaga er í rauninni við tvær og eiginmennirnir,“ segja þær. „Þetta er áhugamannafélag um menningu og listir, stofnað við eldhúsborðið hjá Berglindi í nóvember 2016 með það að markmiði að auka framboð á menningu, þá ekki síst frumsömdu efni, í Skagafirði. Kannski förum við svo í útrás út fyrir fjörðinn ef tækifæri gefst og góð hugmynd kemur upp.“
Nú er þess skemmst að minnast að fyrir rúmum tveimur árum setti Leikfélag Hofsóss upp frumsamið leikrit sem bar nafnið Sveitapiltsins draumur þar sem þær Berglind og Jóhanna, ásamt Einari Þorvaldssyni og Sigmundi Jóhannessyni, voru handritshöfundar og leikstjórnin var í höndum þeirra tveggja. Skyldi það hafa orðið kveikjan að frekari verkefnum?
„Já, það var það,“ segir Jóhanna. „Það komu upp svo margar hugmyndir þá sem við urðum að koma í framkvæmd, svo við ákváðum bara að stofna Frásögu til þess að koma þessu frá okkur.“
Þegar þið ákváðuð að fara af stað með þetta verkefni, voruð þið þá strax með ákveðið efni í farvatninu og búnar að leggja línurnar fyrir ákveðið þema?
„Já, við vorum búnar að tala um það frá því að við vorum með Sveitapiltinn að næst væri gaman að taka fyrir eitthvað tengt sjó og sjómennsku. Það er svona borðleggjandi, búandi hér á þessum stað,“ segja þær.
Og var strax ákveðið að hafa sama snið á þessu og síðast, vera bæði með leikin atriði og tónlist?
Já, þetta „konsept“, að vera með leikþætti og tónlist í bland, var bara að virka vel og var mjög skemmtilegt þannig að okkur langaði að gera meira af því,“ segir Berglind. „Svo var náttúrulega svo ótrúlega gaman að vinna með þeim Einari og Stebba. Einar var auðvitað einn af höfundum Sveitapiltsins þannig að við vorum strax í sambandi við þá félaga um að fara í þetta verkefni með okkur og þeir tóku vel í það. Þetta er þó ekki alveg sama tónlistarfólkið og var þá. Sigvaldi Gunnarsson var með síðast eins og nú, hann syngur, en nýir eru Víglundur Rúnar Pétursson úr Varmahlíð á trommum, Bjarni Salberg Pétursson, Húnvetningur búsettur á Mannskaðahóli er á bassa og svo syngur Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir. Þetta er sem sagt fólk alls staðar að úr firðinum. Hljómsveitin kemur saman út af fyrir sig og æfir, við æfum hér og erum bara í góðu sambandi við Einar og Stebba og svo hittast allir rétt fyrir sýningu og æfa saman. Það er líka það sem er svo frábært við þetta, að geta bara æft þetta svona í sitt hvoru lagi.“
. . .
Að lokum segjast Berglind og Jóhanna vilja hvetja alla til að missa ekki af góðri skemmtun og mæta í Miðgarð. „Það var hugsunin að sýna bæði í Höfðaborg og í Miðgarði en svo komu kosningarnar í veg fyrir það. Miðgarður varð fyrir valinu þþví Sveitapilturinn var bara sýndur hér en það átti að sýna á báðum stöðum. Við stefnum svo á aðra sýningu í Höfðaborg á nýju ári en getum samt engu lofað. Þetta er alveg kjörið, nú þegar kosningaáróðurinn er búinn að bylja á okkur að taka smá pásu frá því, mæta í Migarð, og tæma hugann aðeins, hlæja og hafa gaman af áður en farið er á kjörstað og kosið rétt. Þetta er upplögð uppskrift að góðri kosningahelgi,“ segja þær Jóhanna og Berglind að lokum.
Viðtalið við þær Berglindi og Jóhönnu má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Feykis nr. 40 2017.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.