Parmaskinkuvafinn humar

Sólveig Bergland Fjólmundsdóttir og Rúnar S. Símonarson láta okkur hafa einstaklega girnilegar uppskriftir að þessu sinni. Sólveig og Rúnar  voru matgæðingar Feykis í 45. tbl. árið 2008 og skoruðu þau á þau Nönnu Andreu Jónsdóttur og Guðmund Kr.  Hermundssson Víðihlíð 5 Sauðárkróki, að koma með næstu uppskriftir.

 

Parmaskinkuvafinn humar.

Forréttur fyrir fjóra.

Hráefni:

  • 8 stk. humarhalar (skellausir og hreinsaðir)
  • 4 sneiðar Parmaskinka, skornar í tvennt.
  • Salt og pipar
  • Ólífuolía
  • 8 sneiðar steikt brauð
  • Salat
  • Pestó, eftir smekk

 

 

 

 

 

Aðferð:

Hreinsið humarinn. Vefjið parmaskinkunni utan um og steikið upp úr ólífuolíunni í c.a. 1 mín. á hvorri hlið. Saltið og piprið. Berið fram með stökku brauði, salati og pestói.

 

Nomu-lamb.

Þarf að undirbúa daginn áður. Lambalæri er sett í ofnpott. Ríflega 2 msk. af Nomu- Lamb rub kryddi er blandað saman við c.a. 0,5 dl. ólívuolíu og penslað yfir lærið. Látið bíða yfir nótt. Skerið niður 2 lauka í grófa báta og raðið meðfram lærinu í pottinum. Hellið bolla af vatni og bolla af rauðvíni yfir laukinn og stráið 0,5-1 msk. af Nomu- Lamb rub yfir. Látið lokaðan pottinn í kaldan ofn, stillið á 200°C og steikið í 1,5 klst. Takið lokið af og steikið áfram í 15-20 mín. Takið soðið úr pottinum, sigtið í sósupott og bætið við rauðvíni og rjóma eftir smekk. Þykkið með sósujafnara ef  þarf. Gott er að bragðbæta sósuna með rifsberjageli.

 

Fylltar kartöflur með beikoni.

Fyrir fjóra.

Hráefni:

  • 4 stk. bökunarkartöflur (foreldaðar)
  • 100 g. beikon
  • 1 hvítlauksrif
  • 1 búnt steinselja, saxað
  • Salt og pipar
  • Ögn saxaður chili

Aðferð:

Steikið beikonið og saxið smátt. Takið bökuðu kartöflurnar í tvennt, hreinsið innan úr þeim með skeið og setjið í skál. Passið að skemma ekki hýðið. Stappið innihaldið saman með stökku beikoni, hvítlauk, saxaðri steinselju, salti og pipar og ögn af chili. Fyllið hýðið, setjið kartöflurnar saman aftur, vefjið í álpappír og bakið í ofni. Borið fram með sýrðum rjóma.

 

Súper einföld súkkulaðimús.

Fyrir 4-6

Hráefni:

  • 200 g. rjómi
  • 200 g. súkkulaði
  • 300 ml. léttþeyttur rjómi

Aðferð:

Bræðið súkkulaðið í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði, æskilegt hitastig á súkkulaðinu er um 40-45°C. Volgum rjóma bætt í súkkulaðið í smáum skömmtum og hrært hratt um leið. Léttþeytta rjómanum bætt varlega í. Borið fram í glösum eða í súkkulaðiskálum. Skreytt eftir smekk, t.d. með berjum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir